Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Side 82
82
á beina upplifun og tjáningu í upphafi trúarhreyfinga en vart hefur fyrsta
kynslóð hinna útvöldu safnast til feðra sinna fyrr en einkenni stofnanavæð-
ingarinnar fara að gera vart við sig.18
Max Weber greindi tvo meginstrauma í skipulagi kristinna hreyfinga,
út frá því í hvaða félagsformi þær birtust en það var annars vegar kirkjan og
hins vegar sértrúarhópurinn (e. sect).19 út frá þessari aðgreiningu má segja
að kirkjan sé stofnun sem lagar sig að valdakerfinu og ríkjandi menningu
til þess að tryggja stöðu sína og möguleika til að láta til sín taka. Í þessum
skilningi er kirkjan því víðfeðm og stefnir að því að ná yfirráðum innan
marka ríkis eða jafnvel heimsyfirráðum. Sértrúarhópurinn er skilgetið
afkvæmi kirkjunnar þótt hann sé í algjörri andstöðu við hana. Innan hans
er lagt ofurkapp á sanna trú sem birtist í líferni og vitnisburði útvaldra
andspænis þeirri spillingu sem talin er fólgin í málamiðlun kirkjustofnunar
við tignir og máttarvöld heimsins. Spenna er óhjákvæmileg milli kirkju-
stofnunar, sem yfirleitt gerir litlar kröfur til sóknarbarna sinna, og hinna
útvöldu sem mynda sértrúarhópinn. Í síðara tilfellinu birtist það viðhorf
sem H. Richard Niebuhr kallar Kristur á móti menningunni (e. Christ
against Culture).20 Miðaldakirkjan, sem bæði mótaði evrópska menningu
og ríkti yfir henni, kom sér upp aðferðum til að lágmarka skaðann af slík-
um mótmælum, t.d. með því að loka þá sem líklegir voru til uppreisna inni
í klaustrum eða setja þá út af sakramentinu og þar með gera þá útlæga úr
samfélaginu. Slíkt var meiri erfiðleikum bundið í ríkiskirkjum mótmæl-
enda sem höfnuðu klausturlífi sem frelsunarleið enda urðu kirkjukreppur
meðal mótmælenda hvati til útþrár hinna útvöldu til að sigla yfir hafið og
stofna fyrirmyndarríkið (hina sönnu kirkju) í nýja heiminum.
Ernst Troeltsch betrumbætti flokkunarkerfi Webers hvað varðar félags-
leg birtingarform kristindómsins með því að taka mýstíkina með í reikn-
inginn. Hún byggir á trúarupplifun einstaklinga sem felur í sér svo mikinn
sannfæringarkraft að hinn trúaði stenst bæði valdameðöl kirkjunnar og
18 Trúarbragðafræðingar hafa bent á að í ýmsum trúarbrögðum megi merkja að áhrif
kvenna minnki því meir sem trúarbrögð stofnanavæðast. Stofnunin leggur áherslu
á skipulag og tortryggir sterkar tilfinningar og kenndir sem ekki fylgja fyrirfram
gefnum boðum og bönnum. Það sem er ófyrirséð ógnar ríkjandi valdakerfi. Sjá t.d.
Meredith B. McGuire, Religion: The Social Context, Illinois: Waveland Press, bls.
96–111.
19 Max Weber, Sociology of Religion, Boston: Beacon Press, 1993, bls. 93.
20 H. Richard Niebuhr, Christ and Culture, New York: HarperCollins, 2001.
PÉTUR PÉTURSSON