Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Side 86
86
verulega hugmyndafræði einveldisins. Þvert á móti mætti halda því fram
að allar þessar stefnur hafi í raun styrkt konungsveldið í sessi við nýjar
aðstæður. Helst má sjá að nýrétttrúnaðurinn, sem tók að gera sig gildandi
á Íslandi eftir að veldi Magnúsar Stephensens dómstjóra leið, hafi orðið
aflvaki andófs gegn einveldinu þótt varlega væri farið í sakirnar. Þessi guð-
fræðistefna átti að mörgu leyti samleið með rómantískri þjóðernishyggju á
Íslandi og má þar nefna afstöðu Fjölnismanna og framlag þeirra til útgáfu
trúarlegra bókmennta (Mynstershugvekjur). Sú spenna sem þessi guðfræði-
áhersla hafði í för með sér braust þó ekki fram fyrr en eftir aldamótin 1900
og þá undir formerkjum frjálslyndrar guðfræði.30
Þannig var yfirstjórn kirkjunnar nátengd danska valdinu en sveitaprest-
arnir bændastéttinni og þetta var lykilatriði þegar sjálfstæðisbaráttan hófst
á fimmta áratug 19. aldar. Þau ítök sem prestar áttu meðal fólksins og beitt
var í þjónustu danskrar einveldisstjórnar á 18. öld nýttust eftir 1830 í þjón-
ustu þeirra hreyfinga sem lögðu grunn að þjóðríki á Íslandi. Leynt og ljóst
studdu prestarnir aðgerðir Jóns Sigurðssonar og samverkamanna hans og
tóku virkan þátt í að efla grasrótarhreyfingar í söfnuðum sínum með stofn-
un félaga og samtaka, með því að safna undirskriftum undir bænaskrár,
afla ýmissa upplýsinga og dreifa blöðum og tímaritum. Hvort sem prest-
arnir voru beinlínis talsmenn frjálslyndra sjónarmiða Jóns Sigurðssonar
eða ekki, þá voru þeir í lykilaðstöðu sem milliliður milli bænda og leiðtoga
sjálfstæðisbaráttunnar í Kaupmannahöfn.31
Það merkilega er að þessar félagshreyfingar sem oft lutu forystu
presta fólu ekki í sér endurmat í guðfræðilegum efnum og, eins og áður
segir, urðu ekki neinar trúarvakningar á Íslandi á 19. öld. Guðfræðin var
áfram íhaldssöm í anda þeirra Sjálandsbiskupanna J.P. Mynsters og H.L.
Martensens sem réttlættu konungsveldið.32 Ástæðan fyrir því að andstaða
við þessa konunglegu guðfræði braust ekki fram fyrr en eftir 1880 var
líklega helst sú að leiðtogar sjálfstæðisbaráttunnar vildu semja um lands-
réttindi og fjárhagslegt uppgjör við konung með völd en ekki við dönsk
30 Pétur Pétursson, „Sekulariseringen, nationalismen och den liberala folkkyrkan
på Island“, Kirken mellem magterne, ritstj. Carsten Bach-Nielsen o.fl. København:
Forlaget Anis, 2007, bls. 207–225.
31 Pétur Pétursson, Church and Social Change, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1990, bls.
87–109.
32 Hans Lundsteen, „Institution og reaktion. H.L. Martensens Kirketanker“, Et
Kirkeskifte. Kirkehistoriske studier II, København: Institut for dansk Kirkehistorie,
1960, bls. 278–297.
PÉTUR PÉTURSSON