Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Page 98
98
átti sér stað fyrr en frjálslynda guðfræðin braust fram til áhrifa á fyrsta
og öðrum áratug 20. aldarinnar. Náði sú guðfræðistefna undirtökunum í
kirkjunni á fáeinum árum.
Á þriðja áratugnum kom upp ný kirkjukrísa út af afstöðunni til spírit-
ismans. Þar var tekist á um það hvort hefði meira vægi sem frelsunar-
leið kristinnar trúar, stofnunin eða andinn. Þetta atriði kemur greinilega
fram í deilum þeirra Jóns Helgasonar biskups og Haralds Níelssonar
prófessors og þær mögnuðust svo að við lá að þjóðkirkjan klofnaði. Þessir
fornu samherjar um framgang frjálslyndrar guðfræði urðu með tímanum
fulltrúar gerólíkra sjónarmiða. Persónuleg trúarsannfæring, byggð á því
sem hann kallaði „reynsluþekking“, var leiðarsteinninn í boðun og starfi
Haralds sem trúarleiðtoga og að þessu leyti var hann sambærileg ógn við
ríkjandi kirkjustofnun og leiðtogar róttækra heittrúarhreyfinga sem komu
fram í öðrum löndum mótmælenda á 18. og 19. öld. Eftir að Jón Helgason
axlaði ábyrgð biskupsembættisins breyttist afstaða hans til játningarita
kirkjunnar.
Afstaða þessara fornvina til trúar og kenningar var eðlisólík. Jón greindi
á milli persónulegrar trúar og guðfræði og taldi að guðfræðin yrði alltaf
að vera í endurskoðun, vera ný, en það þýddi ekki að afstaðan til Jesú
Krists og boðskapar hans breyttist.60 Jón fetaði í fótspor föður síns Helga
Hálfdanarsonar, forstöðumanns Prestaskólans í Reykjavík, sem á sínum
tíma var einn skeleggasti talsmaður lúthersks rétttrúnaðar. Hann gerði
aldrei uppreisn á móti föður sínum þótt hann tæki á tímabili upp aðrar
guðfræðiáherslur en hann. Jón naut ráðlegginga og leiðbeininga föður
síns við guðfræðinámið sem hann var mjög sáttur við og taldi koma sér
að miklum notum í störfum sínum sem prófessor í guðfræði og biskup.
Haraldur var bóndasonur og átti ekki eins ánægjulega og átakalausa til-
vist í guðfræðinámi sínu. Taldi hann námið lítt hafa undirbúið sig fyrir
lífsstarfið og kennsluna í Kaupmannahafnarháskóla taldi hann hafa verið
gamaldags og lítt í takt við þarfir tímans. Trú hans var framan af mótuð af
skyldurækni hans og samviskusemi en ekki af innri sannfæringu. Við kynni
sín af spíritisma öðlaðist hann aftur á móti það sem kalla mætti trúarlegt
afturhvarf (e. conversion). Hann varð einn áhrifamesti vakningapredikari í
sögu kristni á Íslandi og hann byggði boðun sína á eigin trúarreynslu og
leit á stofnunina sem ógn við sanna trú. Um hann myndaðist aðdáenda-
60 Jón Helgason, Hirðisbréf til presta og prófasta á Íslandi, Reykjavík: Prentsmiðjan Rún,
1917, bls. 7–13; Jón Helgason, Til andmælenda minna, 1914.
PÉTUR PÉTURSSON