Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Blaðsíða 109
109
greinarheitisins „manifestó“ bendir þannig til þess að kúbó-fútúristarnir
sneiði markvisst hjá skírskotunum til hefðar sem þeim er í mun að greina sig
frá, en þennan mælskufræðilega gjörning má skýra með hliðsjón af gagnrýn-
um athugasemdum kúbó-fútúristanna um Marinetti og verk hans.
Yfirlýsingar, ofbeldi og hernaðarhyggja
Skrif Vladimirs Majakovskij sýna að gagnrýni kúbó-fútúristanna bein-
ist einkum að þeirri ofbeldisdýrkun sem þeir töldu gegnsýra mælskulist
Marinettis. Í texta frá 1918 leitast Majakovskij við að sýna fram á sérstöðu
kúbó-fútúrismans bæði í Rússlandi og á alþjóðavettvangi. Hann sakar
gagnrýnendur um að fella allar hinar ólíku hreyfingar í sama flokk og
„blóta apríkósunni af því að appelsínan hefur þykka húð, því hvoru tveggja
eru ávextir“ – en um leið tekur hann undir fordæmingu gagnrýnenda á
öllum öðrum fútúristahreyfingum:
Það er ekki hægt að banna neinum að kalla sig fútúrista. Undir þessu
heiti hafa verk Ítalans Marinettis verið sett fram – en hann hefur sett
sér pólitísk markmið: endurfæðingu Ítalíu og stríðið – en einnig
verk rússneskra froðusnakka eins og Severjanins og loks okkar eigin:
upplestrar hinna ungu skálda Rússlands sem hafa fundið sinn and-
lega farveg í byltingunni og stigið upp á götuvígi listarinnar.21
Gagnrýnin á hernaðarhyggju Marinettis er ekki aðeins forvitnileg vegna
þess að Majakovskij grípur sjálfur til ofbeldismyndmáls þegar hann lýsir
„andlegri“ baráttu kúbó-fútúristanna „á götuvígjum listarinnar“. Að þessu
leyti má líta á tilvitnunina sem lýsandi dæmi um lykilhlutverk ofbeldisins í
mælskulist framúrstefnuyfirlýsingarinnar, sem ekki er aðeins lýsandi fyrir
herskáa mælskulist Marinettis, heldur brýst einnig fram í stefnumark-
andi textum hreyfinga sem taka gagnrýna afstöðu til þeirrar mælskulistar.
Tilvitnunin er jafnframt lýsandi dæmi um gagnrýna afstöðu til yfirlýsinga
21 Vladimir Majakovskij [Wladimir Majakowski], „Dieses Buch muss jeder lesen!“,
þýð. Hugo Huppert, Werke, 5. bindi, Publizistik. Aufsätze und Reden, ritstj. Leonhard
Kossuth, Frankfurt am Main: Suhkramp, 1980, bls. 57–59, hér bls. 57; Vladimir
Majakovskij [Владимир Маяковский], „Эту книгу должен прочестъ каждый!“,
Эстетические программы и художественная практика русской поэзии XX
века, ritstj. I.V. Strelkova [И.В. Стрелкова], Ižjevsk: УгДУ, 2008, bls. 214–216,
hér bls. 214. Hér, líkt og annars staðar í framhaldinu þar sem þýðingar á önnur mál
hafa verið hafðar til hliðsjónar við þýðingu tilvitnana úr rússnesku, er fyrst vísað í
rússneska frumtextann, síðan í viðkomandi þýðingu.
AF GOðKYNNGI ORðSINS