Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Qupperneq 116
116
ingarinnar. Rainer Grübel hefur bent á að besta leiðin til að lýsa færslunni
frá rússneska symbólismanum yfir til framúrstefnunnar sé að horfa til þess
ólíka hlutverks sem stefnumarkandi textategundum er ætlað. Í symból-
ismanum er gerður skýr greinarmunur á skrifum um bókmenntir og bók-
menntunum sjálfum og sjálfstætt svið skáldskaparins gegnir yfirskipuðu
hlutverki í bókmenntakerfinu. Í starfsemi framúrstefnunnar er aftur á móti
leitast við að „brúa gjána á milli skáldskaparlistarinnar og umfjöllunar
um hana innan ramma stefnuyfirlýsingarinnar“.44 Rofi kúbó-fútúrism-
ans frá hinni symbólísku hefð verður því ekki fyllilega lýst sem róttækari
útfærslu skáldskaparfræðilegra hugmynda symbólismans innan sjálfstæðs
sviðs fagur fræðinnar.
Finna má athyglisvert dæmi um tvíbenta afstöðu kúbó-fútúrismans til
hefðar symbólismans í texta eftir Majakovskij frá 1914, „Einnig við viljum
kjöt!“. Í titlinum má greina íróníska vísun til dulrænna hugmynda um hið
„holdgaða orð“, sem tilheyra kristinni trúarhefð og koma víða fram í skrif-
um rússnesku symbólistanna, m.a. í verkum Vjatsjeslavs Ivanov og Andrejs
Belyj. Í symbólismanum vísar hið „holdgaða orð“ til heimsmyndunarfræða
þar sem orðinu er eignaður lífgefandi kraftur, í texta Majakovskijs er því
aftur á móti varpað inn á vígvöll heimsstyrjaldarinnar miklu:
Sjá: þarna er á rifnu veggfóðri far eftir lófa, högl með tætlum úr
mannsheilum. Mikið er það gáfulegt að við heimskulegan vígvöllinn
hafa verið festir afskornir mannshausar svo hundruðum skiptir.
Já, já, já, það er meira gaman hjá ykkur!45
Frammi fyrir sjónarspili tortímingarinnar lýsir Majakovskij „skáldskap
dagsins“ sem „skáldskap baráttunnar“ eða bardagans og leggur fram skil-
greiningu hins nýja skáldlega orðs: „Hvert orð skal vera sem hermaður
í her, búið til úr heilbrigðu kjöti, rauðu kjöti!“46 Dulræn hugmyndin um
hið „holdgaða orð“ er dregin inn á svið framúrstefnuyfirlýsingarinnar og
endurvirkjuð á írónískan hátt í skilgreiningu á orðinu sem drifkrafti nýs
fagurfræðilegs aktívisma. Yfirrökvís ljóðlist kúbó-fútúristanna myndar
44 Irina Gutkin, „The Magic of Words. Symbolism, Futurism, Socialist Realism“, bls.
174.
45 Vladimir Majakovskij, „Einnig við viljum kjöt!“, þýð. Árni Bergmann, Yfirlýsingar,
bls. 207–210, hér bls. 207–208; Vladimir Majakovskij [Владимир Маяковский],
„И нам мяса!“, Полное собрание сочинений, 1. bindi: Стихотворения, трагедия,
поэмы и статьи 1912–1917 годов, Moskva: Художественная литература, 1955,
bls. 313–315, hér bls. 313.
46 „Einnig við viljum kjöt!“, bls. 210; „И нам мяса!“, bls. 314.
BENEDIKT HJARTARSON