Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Page 118
118
Viljahyggja og nútímaleg galdratrú
Stefnumarkandi textum kúbó-fútúrismans er ekki ætlað að þjóna sem þjóð-
félagsleg verkfæri eða vettvangur þar sem mælendur setja fram hugmyndir
að komandi aðgerðum. Textarnir eru öllu heldur lýsandi fyrir þann skiln-
ing á virkni tungumálsins sem liggur til grundvallar yfirlýsingarforminu í
verkefni sögulegu framúrstefnunnar. Bókmenntagreinin er miðill þar sem
sjálfstæð orðræða listarinnar brýst fram og knýr með dulrænum hætti á um
endurnýjun hugarfarsins og fagurfræðilega umbyltingu menningarinnar.
Þessar hugmyndir skýrast ef horft er til hugmynda um viljann sem voru
áberandi í evrópsku menningarlífi á fyrri hluta tuttugustu aldar og komu
fram með einkar skýrum hætti í Rússlandi. Viljahugtakið sem hér er vísað
til á rætur í orðræðu lífheimspeki og dulspeki um aldamótin 1900, þegar
tengslin á milli þessara orðræðna voru fljótandi. Á þessu tímabili voru
hugmyndir heimspekinga eins og Henris Bergson, Arthurs Schopenhauer,
Williams James og Friedrichs Nietzsche um lífsþrótt og áhrifamátt vilj-
ans gripnar upp af dulspekingum og sá vísir að „andlegum aktívisma“ sem
finna mátti í þessum kenningum settur í forgrunn. Niðurstaðan var róttækt
afbrigði viljahyggju þar sem mannsandinn var talinn geta öðlast algjört
vald yfir efnisheiminum með beitingu tungumálsins. Í skrifum symbólism-
ans voru slíkar dulspekikenningar gjarnan túlkaðar út frá fagurfræðilegu
sjónarhorni og galdramáttur viljans var ekki aðeins talinn bundinn við
orðið, heldur hið skáldlega orð.
Til að gera nánari grein fyrir yfirlýsingum kúbó-fútúrismans – yfirlýs-
ingaheitið vísar hér til ólíkra stefnumarkandi texta kúbó-fútúrismans sem
líta má á sem viðbragð við þessari lykilbókmenntagrein framúrstefnunnar
– er gagnlegt að líta nánar á þær mælskufræðilegu aðferðir sem einkenna
úrvinnslu kúbó-fútúristanna á skáldskaparfræði symbólismans. Sérstaða
symbólismans í Rússlandi fólst ekki síst í því að hér var „litið á orðið sem
efnislega eind“, á grundvelli hugmynda sem voru áberandi í rússnesku
trúarlífi.51 Rússneski symbólisminn byggði á trú á galdramátt tungumáls-
ins sem setti áfram mark sitt á yfirlýsingar kúbó-fútúrismans, hugmyndin
var sú að með því „að mæla fram hið nýja orð mætti skapa nýjan heim“.52
Sú útópíska hugsun sem brýst fram í þessari skáldskaparfræði átti rætur
í trú á „goðkynngi“ eða „teúrgíu“ orðsins. „Goðkynngin“ var róttækasta
51 Bernice Glatzer Rosenthal, „Introduction“, The Occult in Russian and Soviet Culture,
bls. 1–32, hér bls. 18.
52 Sama rit, bls. 18.
BENEDIKT HJARTARSON