Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Page 119
119
birtingarmynd hugmynda um galdramátt orðsins og henni bregður víða
fyrir í nútímadulspeki og öðrum hugmyndastraumum í evrópskri og eink-
um rússneskri menningu á síðari hluta nítjándu og fyrri hluta tuttugustu
aldar.53 Hugleiðingar um „goðkynngi“ má m.a. finna hjá kennismiðum og
skáldum symbólismans, þ. á m. í textum Vladimirs Solovjov, Aleksandrs
Blok, Konstantins Balmont og Andrejs Belyj, sem lýsa hlutverki lista-
mannsins sem spámanns er geti veitt innsýn í komandi ríki andans.
Þegar yfirlýsingar kúbó-fútúrismans eru skoðaðar með hliðsjón af
hefð goðkynnginnar má sjá að hvaða marki yfirlýsingar hans um sögulegt
rof sækja í hugmyndaheim symbólisma og dulspeki í því skyni að sýna
sjálfan málgjörning textans sem inngöngu í nýja vídd. Kúbó-fútúristarnir
grípa upp hugmyndina um goðkynngi og útfæra hana á róttækari hátt,
sem undirstöðu fagurfræðilegs verkefnis síns. Skrif Solovjovs gegndu lyk-
ilhlutverki í útbreiðslu hugmyndarinnar um goðkynngi, en þar segir m.a.:
„Listamenn og skáld þurfa að verða prestar og spámenn á ný, en að þessu
sinni í mikilvægari og upphafnari skilningi: Ekki er nóg með að þeir verði
á valdi trúarlegrar hugmyndar, heldur munu þeir sjálfir hafa vald á þessari
hugmynd og móta jarðneskar holdtekningar hennar á meðvitaðan hátt.“54
Solovjov sækir ekki aðeins til rómantískra hugmynda um goðsögulegt
hlutverk hins fagurfræðilega ímyndunarafls. Í skrifum hans má jafnframt
greina vinnu með hugmyndir um lífgefandi virkni ímyndunaraflsins, sem
rekja má aftur til skrifa Paracelsusar. Hugmyndir Paracelsusar gegndu
veigamiklu hlutverki í rómantískum kenningum um hið fagurfræðilega
ímyndunarafl og öðluðust aukna útbreiðslu með nýjum straumum innan
evrópskrar dulspeki á síðari hluta nítjándu aldar.55 Hugleiðingar Bloks um
ljóðlist symbólismans frá árinu 1910 sýna hvernig hugmyndir Solovjovs
53 Íslenska orðið „goðkynngi“, sem hér er notað sem þýðing á „teurgíu“, sæki ég í
íslenska þýðingu Björns Magnússonar á einu af lykilritum evrópskrar dulspeki-
hefðar frá tímabili aldahvarfanna, Les grands initiés eftir Édouard Schuré, Vígðir
meistarar. Lýsing á dularkenningum trúarbragðanna, þýð. Björn Magnússon, Akur-
eyri: Bókaforlag Odds Björnssonar, 1958.
54 Vladimir Solovjov [Владимир Соловьев], „Три речи в память Достоевского“,
Стихотворения. Эстетика. Литературная критика, Moskva: Книга, 1990, bls.
166–195, hér bls. 169; Vladimir Solovjov [Wladimir Solowjew], „Drei Reden zum
Andenken Dostojewskijs, 1881–1883“, þýð. Ute Konovalenko og Ludolf Müller,
Reden über Dostojewskij, ritstj. Ludolf Müller, München: Erich Wewel, 1992, bls.
16–50, hér bls. 20–21.
55 Sjá Nicholas Goodrick-Clarke, „The Philosophy, Medicine, and Theology of
Paracelsus“, Paracelsus, Essential Readings, þýð. og ritstj. N. Goodrick-Clarke,
Berkeley, California: North Atlantic, 1999, bls. 23–37, hér bls. 36–37.
AF GOðKYNNGI ORðSINS