Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Side 122
122
fagurfræði var ekki aðeins að opna nýjar víddir, heldur um leið að leggja
grunn að lífsþrunginni menningu framtíðar.
Á grundvelli hugmyndarinnar um goðkynngi fékk skáldskapurinn það
hlutverk að leiða mannkynið inn í nýja tíma. Í tilviki kúbó-fútúrismans
vísar þetta hlutverk ekki aðeins til hinnar útópísku víddar í tilraunaljóðum
hreyfingarinnar, heldur einnig til grundvallareinkenna í mælskulist yfirlýs-
ingarinnar. Bókmenntagreinin þjónar sem vettvangur til að veita viljanum
útrás og lykilhlutverk hennar í starfsemi kúbó-fútúrismans verður aðeins
skilið í samhengi hugmyndarinnar um goðkynngi. Textarnir fela í sér
ummyndun kenningarinnar um goðkynngi í róttækt menningarlegt verk-
efni. Ef fagurfræði kúbó-fútúrismans byggir á málspekilegum kenningum
sem eiga rætur í galdratrú, þá liggur textamiðill yfirlýsingarinnar ekki utan
við svið þessara kenninga heldur er það sjálf holdtekning þessarar máls-
peki. Textarnir eru lýsandi dæmi um þá útvíkkun á sjálfstæðu sviði fag-
urfræðinnar yfir á svið aktívisma sem markar sérstöðu framúrstefnuyfir-
lýsingarinnar sem bókmenntagreinar. Þeir birta tilraun framúrstefnunnar
til að víkka út útópískar fagurfræðihugmyndir symbólismans og færa þær
yfir á svið stefnumarkandi textagerðar, í nýjum og þjóðfélagslega virkum
málmiðli. Þannig þjónar hugmyndin um goðkynngi þeirri málgervingu
valdboðsins sem einkennir yfirlýsingar framúrstefnunnar. Textarnir greina
sig afdráttarlaust frá hinni pólitísku yfirlýsingahefð og fyrirliggjandi hefð
stefnumarkandi texta á sviði fagurfræðinnar, að því leyti að þeir vísa ekki
til komandi aðgerða heldur liggur andartak umbyltingarinnar í tungu-
málinu sjálfu. Það er málgjörningur yfirlýsingarinnar sem slíkrar sem
knýr á um breytingarnar.64 Hér gegnir órofa samband hugmyndarinnar
um goðkynngi orðsins við galdramátt viljans lykilhlutverki. Þannig kemst
Carl Kiesewetter svo að orði í einu af lykilritum hinnar nýju dulspeki-
hefðar, frá árinu 1895, að til að „ná valdi á andaheiminum og kalla fram,
með fulltingi hans, yfirnáttúrulegar kraftbirtingar: töfra“ þurfi að „þjálfa
galdramátt viljans“, en til þess megi nýta „ákveðin galdrabrögð og úrræði
goðkynnginnar“.65 Þannig má ná valdi á „öflum alheimsins“ og knýja þau
„til fylgilags við manninn, jafnvel gera þau honum undirgefin. Þetta er í
stuttu máli kenning goðkynnginnar.“66 Trúin á „almætti særingarþulunnar“
64 Nánari umfjöllun um það ferli málgervingar sem hér er lýst má finna í doktors-
ritgerð minni, sem vísað er til hér að framan.
65 Carl Kiesewetter, Die Geheimwissenschaften. Eine Kulturgeschichte der Esoterik, Wies-
baden: Marix, bls. 630.
66 Sama rit, bls. 630.
BENEDIKT HJARTARSON