Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Side 127
127
Í stofnunaryfirlýsingu Marinettis frá 1909 stóðu ítölsku fútúristarnir
„á aldanna ystu nöf“82 og horfðu yfir fortíðina um leið og þeir gáfu innsýn
í framtíðina. Á svipaðan hátt „gláptu“ kúbó-fútúristarnir þremur árum
síðar „ofan af skýjakljúfunum“ á auvirðileik samtímans og lýstu yfir: „horn
tímans blæs okkar vörum í orðsins list“.83 Kúbó-fútúristarnir stóðu þó
báðum fótum í iðnvæddum heimi nútímans og að þessu leyti eru þeir
ólíkir mönnum framtíðarinnar í síðari textum Khlebnikovs, sem hafa sagt
skilið við þennan heim en snúa aftur úr framtíðinni til að gefa út yfir-
lýsingar sínar: „Við horfum á tíma ykkar ofan af bjargi framtíðarinnar.“84
„Trompet Marsbúanna“ opinberar jarðarbúum boðskap gesta úr æðri vídd
og er ætlað að frelsa mannkynið úr búri rökskilningsins: „Kaupendurnir
hafa ávallt laumast á eftir uppfinningamönnunum í hóp, nú fæla uppfinn-
ingamennirnir burt geltandi hjörð kaupendanna sem leynist á bak við
hvern og einn uppfinningamann.“85 Þannig „mun framtíðin ein skera úr
um hvorir voru í búri – uppfinningamennirnir eða kaupendurnir? – og
hvorir munu fá að naga járnið“.86
Vísun í The War of the Worlds eftir H.G. Wells undirstrikar að orð
Marsbúanna í texta Khlebnikovs eru boðskapur úr æðri vídd. Á undan fyr-
irskipununum í lokahluta textans má finna orð geimveranna í verki Wells :
„Húlla, húlla Marsbúar!“87 Tengingin á milli boðskapar tímaflakkaranna í
texta Khlebnikovs og ímyndar Marsbúanna í afþreyingarmenningu sam-
tímans er ennfremur undirstrikuð með beinni vísun til Wells og Marinettis
– þeir eru einu tveir höfundarnir sem er „boðið sem gestum inn í Dúmu
Marsbúanna“ og þannig teknir í hóp forfeðra framtíðarmannsins.88 Vísunin
82 Filippo Tommaso Marinetti, „Stofnun og stefnuyfirlýsing fútúrismans“, þýð. Bene-
dikt Hjartarson, Yfirlýsingar, bls. 97–106, hér bls. 101. Sjá Filippo Tommaso Mari-
netti, „Le Futurisme“, Le Premier manifeste du futurisme, bls. 107.
83 Búrljúk o.fl., „Almennum smekk gefið á kjaftinn“, bls. 183; Búrljúk o.fl., „Пощечина
общественному вкусу“, bls. 50.
84 Velimir Khlebnikov og Grigorij Petnikov [Велимир Хлебников, Григорий
Петников], „Тезисы к выступленко“, Собрание сочинений в трех томах, 3. bindi:
bls. 228; Velimir Khlebnikov [Velimir Chlebnikov] og Grigorij Petnikov, „Thesen
für ein öffentliches Auftreten“, þýð. Peter Urban, Werke, 2. bindi: 263–264, hér
bls. 264.
85 „Труба Марсиан“, bls. 211; „Trompete der Marsianer“, bls. 251.
86 „Труба Марсиан“, bls. 211; „Trompete der Marsianer“, bls. 251.
87 „Труба Марсиан“, bls. 211; „Trompete der Marsianer“, bls. 251. „Húlla, húlla“ eru
fyrstu orð geimveranna sem heyrast á jörðinni í verki Wells, sjá „The War of the
Worlds“, The Complete Science Fiction Treasury of H. G. Wells, New York: Avenel,
1978, bls. 265–388, hér bls. 377.
88 „Труба Марсиан“, bls. 211; „Trompete der Marsianer“, bls. 251.
AF GOðKYNNGI ORðSINS