Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Side 130
130
franska og rússneska symbólismans“.97 Vert er að bæta því við þessa mynd
af hinum fútúríska fjölfræðingi að þekking Khlebnikovs byggði ekki alltaf
á ítarlegum lestri á frumtextum heldur fremur á lauslegum kynnum af síð-
ari tíma umfjöllun í bókum og tímaritum.
Þótt hugmyndabankinn sem verk Khlebnikovs sækja í sé sundurleitur
má greina sameiginlegan þráð, sem liggur í því hvernig hann fléttar saman
ólíkar orðræður og bindur þekkingarfræðilegar spurningar, „skáldskap-
arfræðilegar kenningar“ og söguspekileg þróunarlíkön saman í heildstætt
fagurfræðilegt verkefni.98 Við þetta má bæta mikilvægu atriði: yfirlýsingin
stendur ekki utan við þetta verkefni sem skýringarrit, heldur markar hún
umbreytingu þessa verkefnis í róttæka málræna og fagurfræðilega iðju.
Sé hægt að greina augljósan skyldleika við útópíska fagurfræði rússneska
symbólismans í yfirlýsingum Khlebnikovs, þá er um leið mikilvægt að
missa ekki sjónar á því, að á dýpra þekkingarlegu sviði má hér einnig sjá
greinilegt rof. Skrif Khlebnikovs einkennast af sívaxandi hneigð til vís-
indahyggju og yfirskilvitleg guðshugmyndin sem býr innra með fagur-
fræði symbólismans virðist hverfa. Þannig bætir höfundurinn „fjarveru
frummynda- eða guðsríkis utan við efnisheiminn í sívaxandi mæli upp
með sérstæðum stærðfræðilegum aðferðum, með tilgátu um „æðri vídd“
og vinnu með flóknar og forskilvitlegar tölur“.99 Lesa má „Trompet
Marsbúanna“ sem vísi að þeirri fagurfræði sem varð ríkjandi í síðari skrif-
um Khlebnikovs, eftir að honum opinberaðist lögmál tímans í borginni
Bakú árið 1920, þegar textinn leystist í sívaxandi mæli upp í tilraunastofu
þar sem unnið var með óræðar stærðfræðiformúlur og talnaspeki.100 Þær
97 Gudrun Langer, Kunst, Wissenschaft, Utopie: Die „Überwindung der Kulturkrise“ bei
V. Ivanov, A. Blok, A. Belyj und V. Chlebnikov, Frankfurt am Main: Klostermann,
1990, bls. 345.
98 Irina Gutkin, „The Magic of Words. Symbolism, Futurism, Socialist Realism“, bls.
239.
99 Langer, Kunst, Wissenschaft, Utopie, bls. 348. Um máltilraunir Chlebnikovs, sjá
einnig Willem G. Weststeijn, „Another Language, Another World. The Linguistic
Experiments of Velimir Khlebnikov“, L’Esprit créateur 4/1998, bls. 27–37.
100 „Ég er staddur í Bakú [...] Ég er búinn að uppgötva undirstöðulögmál tímans og ég
held að nú verði jafn einfalt að sjá fyrir atburði framtíðar og að telja upp að þremur.
Ef menn hafa enga lyst á að tileinka sér þá list mína að segja fyrir um framtíðina [...]
þá ætla ég að kenna hana hestunum.“ Velimir Khlebnikov [Велимир Хлебников],
„В. Д. Ермилову. Баку, 3 января 1914 г.“, Собрание сочинений в трех томах, 3.
bindi, bls. 374; Velimir Khlebnikov [Velimir Chlebnikov], „An Vasilij D. Ermilov“,
þýð. Peter Urban, Werke, 2. bindi, bls. 503.
BENEDIKT HJARTARSON