Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Side 135
135
Björn Ægir Norðfjörð
Að kvikmynda guðdóminn
Cecil B. DeMille, epíska stórmyndin
og konungur konunganna1
Halldór Kiljan Laxness dró ekki úr þegar hann lýsti The King of Kings
sem „andlaus[ri] fimmaurabiflíumynd“ og sagði leikstjóra hennar, Cecil
B. DeMille, „meistar[a] í því að búa til myndir sem ekki verða réttlættar
út frá neinu sjónarmiði er skylt eigi við mentaðan smekk“.2 Líkt og hér
væri ekki nóg komið bætti hann við um sjálfan konunginn: „Kristsgervið
sjálft er nákvæm stælíng málverka af hinum blóðlausa, hálfskynsamlega
síðprótestantiska borgara-Kristi nítjándu aldar, klæddum í togu einsog
rómverskur heldrimaður, jafnfjarlægum goðsögn og raunsæi.“3 Því verður
ekki neitað að Halldór Kiljan hafði ýmislegt til síns máls. Frásögnin sem
birtist af Kristi í þessari mynd er formúlukennd í flesta staði. Hann er fyrst
kynntur til sögunnar við framkvæmd kraftaverka, og síðan fylgja í kjölfarið
hefðbundin atriði, kaupahéðnar reknir brott úr musteri Guðs, réttarhöld
hjá Pontíusi Pílatusi, síðasta kvöldmáltíðin, koss Júdasar, krossfestingin og
loks upprisan. Reyndar er í upphafi myndarinnar ýjað að einhvers konar
ástarþríhyrningi á milli Maríu Magdalenu, Júdasar og Jesú en sá þáttur
fjarar fljótt út eftir að Jesús særir dauðasyndirnar sjö úr líkama Maríu.
1 Þessi grein á rætur í erindi sem flutt var í tengslum við sýningarröðina „Jesúbíó á
föstu“ sem fram fór í Neskirkju árið 2006 á vegum Guðfræðistofnunar og Deus ex
cinema auk Neskirkju. Arnfríður Guðmundsdóttir, Árni Svanur Daníelsson, Sig-
urður Árni Þórðarson og tveir ónafngreindir ritrýnar lásu yfir greinina og komu
með hjálplegar athugasemdir. Lokaútgáfan er þó að sjálfsögðu á mína ábyrgð.
2 Halldór Kiljan Laxness, „Kvikmyndin ameríska 1928“, Alþýðubókin, þriðja útgáfa,
Reykjavík: Helgafell, 1949, bls. 121.
3 Sama rit, bls. 122.
Ritið 2/2012, bls. 135–145