Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Blaðsíða 137
137
Jesúmyndum sé „líf og starf Jesú Krists [...] í brennidepli“.6 Hún bætir við
að óhefðbundnari Jesúmyndir einkennist af sterkri „tilvísun til persónu
hans“ og oft í formi svokallaðra kristsgervinga.
Líkt og í flestum öðrum flokkunum á kvikmyndum er um að ræða klif-
unarskilgreiningu. Vestri er kvikmynd sem gerist í villta vestrinu, hryll-
ingsmynd vekur hroll með áhorfendum, söngva- og dansamynd býr yfir
söng og dansi, og Jesúmynd fjallar um Jesú. Það er aftur á móti engin
hefð fyrir því í kvikmyndaiðnaðinum sjálfum né hjá kvikmyndafræðingum
að flokka saman myndir sem gera Jesú að umfjöllunarefni sínu.7 Þetta er
trúarleg og guðfræðileg fremur en veraldleg og kvikmyndafræðileg skil-
greining. Sem persóna af æðra tilverustigi réttlætir Jesús að flokkaðar séu
saman myndir sem eiga að öðru leyti lítt sameiginlegt og eru alls ekki
flokkaðar saman þegar kemur að veraldlegum dilkadráttum. Svo tekin séu
nokkur dæmi þá hefur The King of Kings yfir að ráða öllum helstu eigin-
leikum epísku stórmyndarinnar, Il Vangelo secondo Matteo (1964) evrópsku
höfundarmyndarinnar með nýraunsæislegu ívafi, og Jesus Christ Superstar
(1973) söngva- og dansamyndarinnar. Ef kristsgervingar eru teknir með
6 Arnfríður Guðmundsdóttir, „Kristur á hvíta tjaldinu: Um túlkun á persónu og boð-
skap Jesú Krists í kvikmyndum“, Guð á hvíta tjaldinu: Trúar- og biblíustef í kvikmynd-
um, ritstj. Bjarni Randver Sigurvinsson, Gunnlaugur A. Jónsson og Þorkell Ágúst
Óttarsson, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2001, bls. 33. Sjá almennt um Jesúmyndir
hjá t.a.m. W. Barnes Tatum, Jesus at the Movies: A Guide to the First Hundred Years,
Santa Rosa: Polebridge Press, 2004 og Richard C. Stern, Clayton N. Jefford og
Guerric DeBona, Savior on the Silver Screen, Mahwah: Paulist Press, 1999.
7 Rétt er að taka fram að þótt umfjöllun um Jesúmyndir beri þess oft merki er því ekki
endilega haldið fram fullum fetum að þær séu sjálfstæð kvikmyndagrein (e. genre).
Allajafna eru kvikmyndagreinar Hollywood taldar vera um 10–20 talsins og er svo
oft deilt áfram í nokkrar undirgreinar (e. sub-genre). Sjá t.d. Steve Neale, Genre and
Hollywood, London: Routledge, 2000. Listrænar myndir (e. art cinema) eru yfirleitt
taldar standa utan við flokkunarkerfi kvikmyndagreina. Athugasemdir mínar um
hugtakið Jesúmynd snúast í sjálfu sér ekki frekar um greinarhugtakið en aðrar
kvikmyndafræðilegar eða -sögulegar flokkanir á borð við skeið (e. cycle), bylgjur,
stefnur, hreyfingar og hverslags isma. Jesúmyndin á þar hvergi heima. Meira að
segja yfirgripsmesta flokkunarkerfi sem ég hef séð á prenti, en í því má meðal ann-
ars finna drápsskorkvikindi, skelfileg frí, borgina Glasgow og kirkjukóra á meðal
hundruða misviturlegra flokka (e. category), nefnir hvergi til sögunnar Jesúmyndir.
Sjá: VideoHound’s Golden Movie Retriever 2005: The Complete Guide to Movies on
Videocassette and DVD, ritstj. Jim Craddock, Detroit: Gale, 2004, bls. 917–1087.
Netsíðan Internet Movie Database leysir vandann með því að flokka The King of
Kings til greinanna „Drama“ og „History“, sem er reyndar meingölluð flokkun,
en skráir síðan Jesú á meðal fimmtíu annarra lykilorða er varða frásagnarfléttu (e.
plot keywords) myndarinnar.
Að KVIKMYNDA GUðDÓMINN