Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Page 139
139
an sem frumsýnd var árið 1927 og nokkuð stytt útgáfa sem fór í almenna
dreifingu ári síðar og stuðst er við hér fyrst og fremst. Líkt og greina má
af samanburði þeirra tveggja er hér um að ræða verk sem framleitt er á
einhverjum mestu tímamótum í kvikmyndasögunni – tilkomu hljóðsins.
Fyrri útgáfan er þögul en í seinni útgáfunni hefur verið bætt við hljóði.10
Ekki er þó um eiginlegt tal að ræða, heldur tónlist ásamt leikhljóðum til
áhersluauka líkt og þegar silfurpeningar Júdasar eru taldir. Myndin hefði án
efa orðið með allt öðrum hætti hefði hún verið kvikmynduð ári síðar. Ekki
síst hvað varðar útfærslu á rödd Jesú – bæði blæbrigði sem og texta. Þá er
litmyndin einnig að þróast á þessum tíma og er henni beitt til áhersluauka
í upprisunni en The King of Kings er að öðru leyti í svarthvítu (þótt reyndar
sé upphafsatriði útgáfunnar sem sýnd var 1927 einnig í lit). Þannig að bæði
hvað varðar hljóð og lit ber myndin uppruna sínum á þessum sérstöku
tímamótum glöggt vitni. En hér kemur fleira til en kvikmyndatæknin.
Á þriðja áratug tuttugustu aldar beindust ófá spjót að Hollywood.
Kvikmyndagerð hafði lengi sætt fordómum og verið undirskipuð öðrum
listgreinum sem hún taldist alla jafna ekki tilheyra. Kvikmyndir þóttu oft
höfða til lægstu hvata almennings með óheftu ofbeldi og bersögli í sam-
skiptum kynjanna (söngur sem er auðvitað kunnuglegur enn þann dag í
dag) og voru sakaðar um að afvegaleiða almúgann frá góðum og gegnum
bandarískum samfélagsgildum. Í upphafi þriðja áratugarins reið svo hvert
hneykslismálið yfir kvikmyndanýlenduna Hollywood. Gamanleikarinn
Roscoe Arbuckle var sakaður um nauðgun sem átti að hafa leitt til dauða
fórnarlambsins, leikstjórinn William Desmond Taylor var myrtur og
kvennaljóminn Wallace Reid lést af völdum hömlulausrar morfínneyslu.
Eigendur stærstu kvikmyndaveranna í Hollywood, sem á þessum tíma voru
að mynda þá valdablokk sem átti eftir að einoka bandaríska kvikmyndagerð
næstu áratugi og kölluð hefur verið stúdíókerfið, voru að vonum áhyggju-
fullir yfir slæmu orðspori Hollywood og áhrifa þess á afkomu þeirra í
framtíðinni. Repúblikaninn Will H. Hays var ráðinn árið 1922 sem fyrsti
forseti samtaka kvikmyndaframleiðenda og -dreifenda í Bandaríkjunum
(MPPDA – Motion Picture Producers and Distributors of America) með
m.a. það að leiðarljósi að hann tæki rækilega til í spillingarbælinu. Þótt
10 The King of Kings var ein þeirra fjölmörgu mynda sem fóru í endurdreifingu að við-
bættu hljóði en áhugi almennings á hljóðmyndinni var slíkur að í Bandaríkjunum
áttu þöglar myndir sér ekki lengur viðreisnar von er komið var fram á árið 1928.
Sjá Donald Crafton, The Talkies: American Cinema’s Transition to Sound, 1926–1931,
Berkeley: University of California Press, 1997, bls. 138–168.
Að KVIKMYNDA GUðDÓMINN