Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Page 140
140
framleiðslusáttmálinn sem við hann er kenndur og lýtur að boðum og
bönnum um innihald kvikmynda hafi ekki verið innleiddur fyrr en 1930
var þegar hafist handa við að eyða óæskilegum þáttum af hvíta tjaldinu.
Gjarnan var það gert í samvinnu við félagasamtök og sérstaklega trúar-
stofnanir sem höfðu hvað harðast gagnrýnt Hollywood.11
The King of Kings mótast ekki aðeins af þessum sérstöku sögulegu og
samfélagslegu aðstæðum, heldur hafði kvikmyndin einnig áhrif á þetta ferli.
Í tvennum skilningi var henni ljóslega ætlað að bæta ímynd Hollywood.
Hún var íburðarmikil stórmynd sem átti að sýna listfengi og áhrifamátt
kvikmyndarinnar og hún var óður til kristinnar trúar með það yfirlýsta
markmið að breiða út trúna – göfugra samfélagshlutverk varð ekki fundið.
Þetta var þó afar viðkvæmt og vandmeðfarið umfjöllunarefni þar sem fyrir
alla muni mátti ekki styggja þær ólíku trúarstofnanir sem höfðu mestra
hagsmuna að gæta og fylgdust grannt með framleiðslu myndarinnar, eink-
um mótmælendur, kaþólikkar og gyðingar. Á meðan á framleiðslunni stóð
urðu samskipti MPPDA og fulltrúa mótmælenda nánari en nokkru sinni
fyrr, en samstarfið fór út um þúfur á endanum. Hays-skrifstofan kaus að
vinna með sterkum miðlægum stofnunum, en mótmælendur skorti áþreif-
anlega sterk regnhlífasamtök sem hefðu getað sætt andstæðar skoðanir
ólíkra kirkjudeilda.12 Kaþólska kirkjan bjó aftur á móti við slíka miðstýringu
og átti eftir að eiga farsælt samstarf við Hays-skrifstofuna um áratuga skeið
sem sést kannski best á því að Daniel A. Lord, sem var einn ráðunauta
kaþólikka við gerð The King of Kings, varð síðar einhver helsti hugmynda-
fræðingur Hays-sáttmálans. Gyðingar höfðu líklega mestu að tapa við gerð
11 Um þetta tímabil í sögu Hollywood má m.a. lesa hjá Robert Sklar, Movie-Made
America: A Cultural History of American Movies, önnur útgáfa, New York: Random
House, 1994, og Douglas Gomery, The Hollywood Studio System: A History, London:
British Film Institute, 2005. Um ritskoðun og Hays-skrifstofuna, sjá sérstaklega
Richard Maltby, „The Production Code and the Hays Office“, Grand Design:
Hollywood as a Modern Business Enterprise, 1930–1939, ritstj. Tino Balio, Berkeley:
University of California Press, 1993, bls. 37–72, og hneykslismálin í Headline
Hollywood: A Century of Film Scandal, ritstj. Adrienne L. McLean og David A. Cook,
New Brunswick: Rutgers University Press, 2001.
12 Richard Maltby, „The King of Kings and the Czar of All the Rushes: The Propriety
of the Christ Story“, Controlling Hollywood: Censorship and Regulation in the Studio
Era, ritstj. Matthew Bernstein, New Brunswick: Rutgers University Press, 1999,
bls. 60–86. Fyrst birt í Screen 2/1990, bls. 188–213. Engu að síður þykir Maltby
hugmyndafræði myndarinnar sækja fyrst og fremst í brunn mótmælenda og þá
sérstaklega viðleitni þeirra til að samræma kristna trú og vaxandi neysluhyggju
bandarísks samfélags þess tíma, bls. 71.
BJöRN ÆGIR NORðFJöRð