Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Qupperneq 143
143
er enginn eftirbátur Kleópötru eða annarra frakkra kvenda í epísku stór-
myndunum, þar sem framandi heimur Rómverja eða Egypta réttlætti
djarfari framsetningu á kvenfólki en alla jafna viðgekkst í Hollywood. En
hún sækir ekki síður bersögli sína til „flapper“-stúlkunnar sem hneykslaði
bandarískt samfélag með frjálslyndi sínu sem var ekki síst af kynferðisleg-
um toga. María þessi er í raun harla lík nútímakonunni sem Swanson lék
í fjölda mynda DeMilles en afturhaldssamar frásagnir þeirra bjuggu yfir
einföldum skilaboðum: Frjálsa nútímakonan lærir að hennar rétti staður er
við hlið karlmannsins sem henni ber að bugta og beygja sig fyrir. Þetta er
jú samband Maríu og Jesú í The King of Kings í hnotskurn.
Enginn skuggi fellur á Krist (H. B. Warner) sjálfan, sem er uppljóm-
aður í hverri senu.15 Ef María býr framan af yfir karllegum eiginleikum,
hvað varðar bæði frásagnar- og samfélagsstöðu, er Jesús að einhverju leyti
kvengerður í myndinni. DeMille og samstarfsmenn hafa nefnilega brugðið
á það ráð að mynda og lýsa Warner sem að kvenstjarna væri í von um að
fanga guðdóminn. Mjúki fókusinn sem var notaður til að magna dulúð
og kynþokka kvenna áréttar hér guðlega eiginleika Jesú. Lýsingin er afar
sterk, ekki síst að ofan, og ávallt á Warner svo að höfuð og herðar hans
ljóma hreinlega líkt og hann væri vera af öðrum heimi. Ekki einu sinni
Swanson eða Greta Garbo voru lýstar svo mjög, enda virðist í sumum
atriðum hafa þurft að grípa til tæknibrellna til að ná fram útgeislun
frelsarans.
Barry Salt, Moving Into Pictures: More on Film History, Style, and Analysis, London:
Starword, 2006, bls. 168–173. Á þriðja áratugnum víkur áhrifarík klipping og lýsing
fyrir stórkarlalegum sviðsetningum, auk þess sem að DeMille hreyfir tökuvélina
tiltölulega lítið þrátt fyrir mikið rými. Það má kannski segja að þessi aðferðafræði
DeMilles hafi verið sem sniðin fyrir The King of Kings og epískar stórmyndir
almennt sem ganga út á íburð og áhrifamátt sviðsmyndar, og fór svo mjög í
taugarnar á Laxness að hann lýsti þeim sem „póstkort[um] af alskonar skrani“.
„Kvikmyndin ameríska 1928“, bls. 123. Reyndar ber að geta þess að sjálft fram-
leiðsluferli mynda DeMilles á þriðja áratugnum var um margt nútímalegt en hann
tók oft á tíðum upp hvert atriði með mörgum myndavélum í einu svo framkalla
mætti dramatík ekki ólíka þeirri á leiksviðinu. Sjá David Bordwell, Janet Staiger og
Kristin Thompson, The Classical Hollywood Cinema: Film Style & Mode of Production
to 1960, New York: Columbia University Press, 1985, bls. 139–140.
15 Þess má til gamans geta að H. B. Warner er á meðal spilafélaga Gloriu Swanson í
hlutverki Normu Desmond í Sunset Boulevard (1950). DeMille leikur einnig sjálfan
sig í myndinni en Norma sækir hann heim í Paramount-kvikmyndaverið þegar hún
hyggur á endurkomu sína á hvíta tjaldið.
Að KVIKMYNDA GUðDÓMINN