Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Page 147
147
Á undanförnum áratugum hafa kvikmyndafræðingar att kappi við tímans
tönn, að því marki sem rannsóknar- og safnafjármagn hefur leyft, um að
kortleggja þann arf kvikmynda frá fyrstu áratugum miðilsins sem hefur
ratað í öruggt skjól undan hvers kyns eyðileggingaröflum.1 Með eflingu
þessara rannsókna hefur sjóndeildarhringurinn víkkað og fræðimenn í
auknum mæli beint athygli að þeim greinum og tegundum kvikmynda sem
ekki falla undir hina hefðbundnu leiknu frásagnarkvikmynd eða listrænu
heimildarmynd, en eiga það sammerkt að verða til innan vébanda stofn-
ana og fyrirtækja sem stuðlað hafa að gerð þeirra í hugmyndafræðilegum
eða hagsmunatengdum tilgangi.2 Hér er um að ræða myndir, oft kenndar
1 Einungis um 10% kvikmynda frá fyrstu áratugum tækninnar hafa varðveist. Tengist
það hverfulleika filmuefnisins sjálfs sem og því að lítil rækt var lögð við varðveislu
kvikmynda. Síðarnefnda atriðið má að hluta skýra með tilvísun til ríkjandi viðhorfa í
garð kvikmynda sem afþreyingarmiðils. Sjá m.a. Paolo Cherchi Usai, Silent Cinema:
An Introduction, London: BFI Publishing, 2003, bls. 12–16.
2 Rétt er að taka fram að ómögulegt er að draga skýr mörk á milli listrænt og hug-
myndafræðilega sjálfstæðra kvikmynda annars vegar og hagsmuna- eða áróðurs-
mynda hins vegar. Vitanlega koma hagsmunir, fjárfestingar og hugmyndafræðileg
stýring við sögu kvikmyndagerðar almennt, og gjarnan á meira skilyrðandi hátt
en raunin er með margar aðrar listgreinar, vegna þess hversu fjárfrek og umfangs-
mikil kvikmyndaframleiðsla er að öllu jöfnu. Þannig er kvikmyndaframleiðslu-
módelið sem kennt er við Hollywood t.d. drifið áfram af auðmagni fjárfesta
sem gera ákveðnar væntingar um að varan sé söluvænleg og hugmyndafræðilega
samræmanleg ríkjandi viðhorfum nútíma neyslusamfélags. Kvikmyndir sem fram-
leiddar eru fyrir opinberan eða yfirlýstan atbeina tiltekinna stofnana til sýningar á
öðrum vettvangi en í markaðskvikmyndahúsum má hins vegar flokka sérstaklega
á forsendum þess hversu bein tengslin eru alla jafna milli kostunaraðila og þeirra
Heiða Jóhannsdóttir
Konan, borgin og kynsjúkdómar
Myndhverfing sóttnæmis í breskum fræðslumyndum
Ritið 2/2012, bls. 147–168