Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Page 151
151
Leitast verður við að sýna fram á hvernig hugmyndin um smit og spillingu
fær þar breiða táknræna skírskotun, en annars vegar verður hugmyndin
um smithættu að myndhverfingu fyrir upplausn á kynjaðri svæðis skiptingu
samfélagsins og hins vegar má segja að spillingaráhrif kvikmyndavett-
vangsins og hugmyndir um uppbyggilegri beitingu kvikmyndamiðilsins
séu tekin til umræðu kvikmyndunum. Þannig leitast þessi grein við að
greina tiltekið mengi kvikmynda úr sögu fræðslumyndagerðar í samhengi
við orðræðu og mótun utanbíóhúsavettvangsins, og er þannig reynt að
varpa ljósi á hugmyndafræðileg átakaefni á sviði kynjaumræðu og af-
þreyingarmenningar.
Kvikmyndamiðillinn og myndhverfing sóttnæmis
Eins og Annette Kuhn hefur m.a. bent á mættu fyrstu kvikmyndirnar, sem
framleiddar voru undir formerkjum félagslegra umbóta eða almennings-
fræðslu á þriðja áratugnum, þversagnakenndum viðbrögðum sem mótuðust
annars vegar af viðleitni til að nýta útbreiðslu- og áhrifamátt kvikmyndar-
innar til félagslegrar mótunar og hins vegar af tortryggni stjórnvalda og
forréttindastétta gagnvart ófyrirsjáanlegum áhrifum hins öfluga kvik-
myndamiðils á almenning.10 Það vekur því athygli að þrátt fyrir tortryggni
í garð kvikmyndarinnar sem siðferðilegs spillingarafls, hafi svið kynfræðslu
orðið fyrir valinu þegar fyrstu skrefin í átt að skipulagðri framleiðslu
fræðslumynda voru tekin á vegum hins opinbera í Bretlandi. Raunar voru
það borgaraleg félagasamtök sem nefndu sig The National Council for
Combating Venereal Disease eða NCCVD (Landssamtök gegn kynsjúk-
dómum) sem vöktu athygli á möguleikum kvikmyndamiðilsins til almenn-
ingsfræðslu og öfluðu stuðnings hjá breska heilbrigðisráðuneytinu til þess
að hefja framleiðslu og dreifingu fræðslumynda. Þann hljómgrunn sem
NCCVD fékk frá hinu opinbera í beitingu nýrra aðferða í forvarnarstarf-
inu má setja í samhengi við þær áhyggjur sem útbreiðsla kynsjúkdóma
hafði valdið meðal stjórnvalda í Bretlandi sem og víðar vegna áhrifa þeirra
á liðstyrk herja í fyrra stríði. Á eftirstríðsárunum var kynsjúkdómaváin
áfram áhyggjuefni í Bretlandi, enda var hún, líkt og Lucy Bland og Frank
Mort hafa bent á, markvisst tengd víðtækari áhyggjum af styrk og stöðu
10 Annette Kuhn, Cinema, Censorship and Sexuality, London og New York: Routledge,
1988, bls. 38–50.
KONAN, BORGIN OG KYNSJúKDÓMAR