Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Blaðsíða 158
158
stórverslanir og kaffihús. Hinar skilvirku og ódýru almenningssamgöngur,
lestir og strætisvagnar gerðu konum jafnframt kleift að ferðast um borg-
ina á eigin vegum og margar vinnandi konur bjuggu einar í leiguhúsnæði.
Þessar breytingar á sambandi kvenna og almannarýmisins kölluðu á rót-
tækt endurmat, sem gerði mæri opinbers rýmis og heimilissviðsins í hinu
nútímalega borgarumhverfi að átakasviði þar sem togstreita myndaðist
um afmörkun kynjahlutverka.29 Í þeirri átakaorðræðu varð það neysluum-
hverfi sem beindist ekki síst að konum að miðlægri táknmynd tæling-
armáttar, og þá ekki síst ímynd afgreiðslustúlkunnar, en staða hennar við
búðarborðið varð að nokkurs konar táknmynd fyrir víðtækar hugmyndir
um spillingu kvenlíkamans í gegnum varningsvæðingu.30
Á meðan niðurstaða Damaged Goods staðfestir ákveðna aðgreiningu á
milli efri og neðri stétta samfélagsins, eru þær áhyggjur sem beinast að
skörun opinbers rýmis og heimilisrýmis ekki síður miðlægar í táknheimi
hennar. Í því samhengi má lesa kvenpersónur sögunnar, Henriettu og
Edith, sem fulltrúa sið- og heimilisvæddra kvenna annars vegar og kvenna
sem eru virkar í almannarýminu hins vegar. Á meðan Henrietta er í rás
sögunnar vandlega sviðsett innan öruggra veggja heimilisins, tengist Edith
hinu opinbera rými, fyrst sem afgreiðslustúlka í verslun og síðan sem
vændiskona sem starfar á götum úti og á vettvangi næturlífsins. Sorgarsaga
Edith verður jafnframt að dæmi um það hvernig athafnasemi konu á
atvinnumarkaði, í tilfelli Edith sem afgreiðslustúlka, leiðir til glötunar
hennar. Þannig má segja að spilling ungu sveitastúlkunnar í stórborginni
taki á sig táknmynd líkamlegrar skaðsemi kynsjúkdómsins. Í því samhengi
birtist kvenfataverslunin sem siðspillandi umhverfi, þar sem sölustúlkur
starfa innan um karlkyns samstarfsmenn og viðskiptavini. Kvenkyns við-
skiptavinir girnast glæsikjólana sem eru til sölu á meðan karlkyns fylgdar-
menn þeirra gjóa lostafengnum augum á sýningarstúlkurnar sem ganga
um verslunina og sýna kjólana. Fyrsta og eina augnablikið í myndinni
sem leiðir Edith og Henriettu saman í sögunnar rás er þegar sú síðar-
29 Sjá m.a. Lise Shapiro Sanders, Consuming Fantasies: Labor, Leisure, and the
London Shopgirl, 1880–1920, Columbus: Ohio State University Press, 2006; Erika
Diane Rappaport, Shopping for Pleasure: Women in the Making of London's West End,
Princeton, N.J.: Princeton University Press, 2000; Susan Porter Benson, Counter
Cultures: Saleswomen, Managers, and Customers in American Department Stores,
1890–1940, Urbana: University of Illinois Press, 1986; Women in the Metropolis:
Gender and Modernity in Weimar Culture, ritstj. Katharina von Ankum, Berkeley,
Los Angeles og London: University of California Press, 1997.
30 Lise Shapiro Sanders, Consuming Fantasies, bls. 23.
HEIðA JÓHANNSDÓTTIR