Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Page 161
161
við veruna í stórborginni. Í myndinni er þó ekki um stúlku að ræða heldur
sveitapilt, og beinist ávarp fræðsluboðskapar myndarinnar hér sem fyrr að
ungum karlmönnum. Pilturinn, George, heldur úr koti foreldra sinna til
London þar sem honum býðst bókhaldsstarf á endurskoðendaskrifstofu,
en snýr skömmu síðar aftur sýktur af kynsjúkdómi og segir farir sínar
ekki sléttar. Í endurlitsfrásögn sem lýsir reynslu hans, má þegar í upphafi
sjá hvernig sveitapilturinn reynir að fóta sig í borgarumhverfi, þar sem
viðskipta- og samkeppnislögmál ráða ríkjum.34 Vinnuaðstaða George er í
forsal ritara og aðstoðarmanna skrifstofustjórans, en þar starfa tveir ungir
menn við bókhaldsstörf, ásamt einkaritara, móttökuritara og símadömu,
sem allar eru ungar og ólofaðar konur. Rými vinnustaðarins verður þann-
ig að skýrri birtingarmynd þeirra nánu og kynjablönduðu samskipta sem
ný félagsgerð borgarsamfélagsins hafði í för með sér og samskipti unga
fólksins á vinnustaðnum fara ekki síst fram í gegnum daður og stefnumót.
Vinnustaðurinn verður fyrir vikið að markhópi fyrir upplýsingamiðlun
um forvarnir gegn kynsjúkdómum, en í fyrstu starfsviku George kemur
yfirmaðurinn fram í forsalinn og dreifir auglýsingum fyrir fræðslutengda
kvikmyndasýningu á vegum BSHC meðal unga fólksins. Velviljaður sam-
starfsmaður George afræður að sækja fræðslukvöldið og hvetur hann til að
koma með sér, en George býðst hins vegar að fara á stefnumót með sam-
starfskonu sinni, einkaritaranum Normu, sama kvöld og afþakkar boðið.
Kynjablandaðir vinnustaðir og fjölbreytileg afþreyingarform borgarlífsins
eru hér þau svið samfélagsins sem sjónum er beint að, og varpar atriðið
sjálfvísandi ljósi á aðferðir BSHC við að ná til ungs fólks. Valkostir Georges
um kvöldafþreyingu, þ.e. fræðslukvöldið eða stefnumót, eru einnig merk-
ingarhlaðnir út frá samtímalegri siðferðisorðræðu. Bandaríska fræðikon-
an Kathy Peiss hefur fjallað um það hvernig áhyggjur siðferðispostula
yfir siðspillingarsvæðum nútímaborgarlífsins beindust ekki síst að þeirri
neysludrifnu stefnumótamenningu sem ruddi sér til rúms á Vesturlöndum
samhliða afþreyingarformum á borð við skemmtigarða, danshallir, revíur
og kvikmyndahús. Samskipti kynjanna fóru í auknum mæli fram í gegnum
þessar skemmtanir, og í tengslum við þær öðluðust konur áður óþekkt-
34 Þessi framsetning nútímastórborgarlífsins kallast á við áhrifamikil skrif Georgs
Simmel um einkenni stórborgarverundar, sem mótast af viðskiptatengslum (þ.
Gesellschaft) í stað félagslegra tengsla (þ. Gemeinschaft) smærri samfélaga sveita-
samfélagsins. Georg Simmel, „The Metropolis and Mental Life“, The Blackwell
City Reader, þýð. Edward Shils, ritstj. Gary Bridge og Sophie Watson, Oxford:
Blackwell Publishing, 2002.
KONAN, BORGIN OG KYNSJúKDÓMAR