Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Page 163
163
Sams konar sjálfvísandi frásögn er að finna í Any Evening After Work (Að
lokinni vinnu, 1930), annarri forvarnarmynd sem framleidd var af BSHC. Í
þessari mynd reynist fræðslumiðaður kvikmyndavettvangur einnig bjarg-
ræði ungs manns sem farið hefur ógætilega í kynferðismálum. Frásögnin
í myndinni fylgir þeirri forskrift að tefla fram dæmisögu af óförum ungra
manna sem smitast eftir ástarævintýri með vafasömum konum sem þeir
hitta á götum úti. Í þessari mynd er hins vegar ekki um vændiskonu að
ræða heldur unga einhleypa konu sem spókar sig ásamt vinkonu og skoðar
gluggaútstillingar í verslunum. Pilturinn sem er aðalsögupersóna mynd-
arinnar gengur heim á leið eftir vinnu og mætir augnaráði tveggja ungra
kvenna í spegli í verslunarglugga sem þær hafa staldrað við til að dást að
söluvarningi og laga á sér hárið. Stúlkurnar ganga síðan í humátt á eftir
piltinum og í fjarmynd sjást þau ræða saman á götuhorni, þar sem ráða-
gerð um stefnumót við aðra stúlkuna virðist vera fastsett. Atburðarásin í
kringum fund mannsins og kvennanna er tvíræð og hefur jafnvel yfirbragð
vændiskaupa en reynist hins vegar dæmi um skyndikynni sem ungir karlar
eru í kjölfarið varaðir við í fræðsluboðskap myndarinnar. Þar er varað við
þeim misskilningi að vændi sé „eina ástæðan fyrir útbreiðslu sjúkdómsins“
og bent á að oft liggi sökin í „siðgæðisskorti“ og „skorti á sjálfstjórn“ hjá
unga fólkinu. Hér má sjá hvernig áherslubreyting forvarnarorðræðunnar
hefur sagt skilið við hina hefðbundnu tvíhyggju móðurinnar og skækjunn-
ar, myndhverfing spillingar er færð út fyrir ramma vændis og þess í stað
tengd ferðum kvenna um tælandi umhverfi neyslu- og ímyndasamfélagsins
þar sem samskipti unga fólksins markast af rökvísi viðskipta. Tákngerving
smitberans færist þannig frá götustúlkunni, sem er samfélagslega útskúfuð,
til kvenna sem athafna sig eftirlitslaust í almannarými nútímaborgarinnar
í tengslum við vinnu eða afþreyingu. Þannig má lesa ákveðna varnaðar-
orðræðu í myndirnar, þar sem samfélagsleg virkni kvenna er sýnd í var-
hugaverðu ljósi og lögð að jöfnu við óhefta kynferðislega virkni.
Líkt og í Uncharted Sea er lausninni við vanda piltsins teflt fram á sama
vettvangi og spillingunni, þ.e. í afþreyingarumhverfi borgarinnar. Þar sem
hann ráfar um götur gengur hann fram á kvikmyndahús þar sem auglýstur
er fyrir karlmenn fyrirlestur um „vandamál lífs og heilsu“ í boði BSHC.
Ungi maðurinn finnur sér sæti í kvikmyndasalnum þar sem við tekur
fyrirlestur læknis, sem kemur forvarnarupplýsingum á framfæri með því að
segja sjúkdómssögur einstaklinga sem sýkst hafa af kynsjúkdómum en ekki
brugðist við á réttan hátt. Hver sjúkdómssaga hefst með skoti af lækninum
KONAN, BORGIN OG KYNSJúKDÓMAR