Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Síða 170
170
ustu aldar þegar Ólafur Thors og Jónas Jónasson frá Hriflu „tóku sér sæti
hlið við hlið í bankaráði Landsbankans“ og innsigluðu með því grunninn
að „helmingaskiptum tveggja helztu flokka landsins“.4
Hallgrímur dróst sjálfur inn í þessi hatrömmu átök þegar hann gagn-
rýndi Davíð Oddsson opinberlega í septembermánuði 2002 og ásak-
aði hann um óeðlileg afskipti af íslensku atvinnulífi í frægri grein sinni
„Baugur og bláa höndin“. Samkvæmt Hallgrími hafði ekkert breyst þrátt
fyrir allan fagurgalann: „Gamla valdakerfið er ennþá til og rembist nú
eins og það getur við að halda öllum spilum á sínum höndum; annarri
blárri og hinni grænni.“5 Greinina má kalla vörn fyrir hin nýju markaðsöfl,
frjálsa samkeppni og einkavæðingu, en ástæðan fyrir birtingu hennar voru
lögregluaðgerðirnar gegn Baugi eftir ásakanir um bókhaldssvik. Að mati
Hallgríms voru þær örvæntingarfull tilraun til þess að halda aftur af þessu
helsta „spútnik-fyrirtæki“ landsins, en ráðamenn höfðu:
Hótað að brjóta það upp sem og brjálast yfir kaupum þess á hlut í
FBA. Við sem heima sitjum skiljum ekki hvers vegna guðfaðir nýja
hagkerfisins snýst gegn bestu börnum þess. Við skiljum ekki hvers
vegna sjálfstæðismenn beita öllu sínu gegn sjálfstæðustu mönnum
landsins.6
Vegna opinskárrar gagnrýni sinnar á stjórnarhætti Sjálfstæðis- og Fram-
sóknarflokks á ríkisstjórnarárum Davíðs Oddssonar og Halldórs
Ásgrímssonar hefur líklega enginn íslenskur listamaður fengið á sig jafn
harðorðar ásakanir eftir hrunið fyrir meintan stuðning sinn við útrásar-
elítuna og Hallgrímur Helgason. Hann hefur verið gerður að fulltrúa
þeirra íslensku listamanna sem gengu fjármálaöflunum á vald. En er sú
umræða málefnaleg og til þess fallin að auka skilning okkar á gagnrýnis-
leysi íslenskra rithöfunda á árunum fyrir hrun eða búa þar að baki pólitísk
sjónarmið sem forðast verður í fræðilegri greiningu? Því má heldur ekki
gleyma að Hallgrímur er einn af fáum íslenskum listamönnum sem hefur
4 Sjá samantekt Guðna Elíssonar í „Vogun vinnur …“, bls. 122–123; en jafnframt
Þorvaldur Gylfason, „Ætlar linkindin aldrei að líða hjá?“, Skírnir 182/2008 [haust],
bls. 489–497, hér bls. 490; Roger Boyes gerir sjálftökusamfélagið einnig að umfjöll-
unarefni sínu í „Meltdown Iceland, How the Global Financial Crisis Bankrupted
an Entire Country“, Ritið 2/2012, bls. 35–42.
5 Hallgrímur Helgason, „Baugur og bláa höndin“, Morgunblaðið 13. september 2002,
bls. 34.
6 Hallgrímur Helgason, „Baugur og bláa höndin“, bls. 34.
ALDA BJöRK VALDIMARSDÓTTIR OG GUðNI ELÍSSON