Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Qupperneq 179
179
og á [svo] öskraði á fundi með stjórnendum sparisjóðanna sem skulfu eins
og hríslur, barði í borðið og sparkaði stól um koll“.27
Bók Rogers Boyes er ekki síst áhugaverð fyrir þá sök að hún birtir sýn
einstaklings sem skoðar lífið á Íslandi með gestsauga. Það sem skín í gegn-
um lýsingarnar er undrun útlendings sem horfir á hatramma flokkadrætti,
þar sem öllu má fórna og allt er metið í nafni tengsla og innbyrðis áhrifa.
Boyes gerir líklega, rétt eins og Hallgrímur, of mikið úr afleiðingunum af
átökum Davíðs og Jóns Ásgeirs fyrir íslenskt efnahagslíf, en hann spyr og
svarar: „Hver vann stríðið? Í þrjósku sinni og þröngsýni áttu báðir þessir
menn þátt í því að stýra Íslandi í kaf.“28 Bók Boyes dregur skýrt fram hversu
hættulegt það gat reynst að lýsa yfir þótt ekki væri nema óbeinum stuðn-
ingi við Jón Ásgeir í þessari hatrömmu valdabaráttu. Að sama skapi varpa
lýsingar hans ljósi á ástæður þess að andstæðingar Hallgríms ganga svo fast
fram í að sverta nafn rithöfundarins. En hvers vegna tók Hallgrímur svo
óvænta og einarða stöðu gegn Davíð Oddssyni árið 2002?
Í kjölfar Höfundar Íslands varð Hallgrímur pólitískari en áður og í átök-
unum um söguskýringu verksins varð hann, kannski ekki svo óvænt, sam-
herji hægrisinnaðra stjórnmálaskýrenda sem tóku bókinni fagnandi sem
harðri atlögu að heimskommúnisma og sögu vinstri hreyfinga á Íslandi.
Á sama tíma gagnrýndi íslensk menningarelíta skáldsöguna harðlega
fyrir að draga upp villandi mynd af uppgjörinu við kommúnismann og
sér í lagi var Hallgrímur skammaður fyrir atlöguna að höfundarímynd
Halldórs Laxness.29 Hannes Hólmsteinn Gissurarson varð helsti liðs-
maður Hallgríms í átökunum um Höfund Íslands og Davíð Oddsson for-
sætisráðherra lofaði verkið í nýársávarpi sínu til íslensku þjóðarinnar.30
27 Sjá frétt Pressunnar um málið: „Kaup Orca-hópsins á FBA: Davíð Oddsson um-
hverfðist, barði í borðið og sparkaði stól um koll“, 2009, sótt 5. apríl 2012 af
http://www.pressan.is/Vidskipti/Lesavidskiptafrettir/kaup-orca-hopsins-a-fba-
david-umhverfdist-bardi-i-bordid-og-sparkadi-stol-um-koll. Sjá einnig frásögn
Ármanns Þorvaldssonar, Ævintýraeyjan Uppgangur og endalok fjármálaveldis, þýðing
Svanborgar Sigmarsdóttur, Reykjavík: Bókafélagið, 2009, bls. 67.
28 Roger Boyes, Meltdown Iceland: How the Global Financial Crisis Bankrupted an Entire
Country, bls. 77.
29 Greiningu á átökunum má finna í Alda Björk Valdimarsdóttir, Rithöfundur Íslands,
sérstaklega á bls. 153–183.
30 Davíð segir: „Í vor komandi verður öld liðin frá fæðingu skáldsins Halldórs Lax ness.
Um hann var löngum hart deilt og um hann er enn deilt eins og menn sjá af viðbrögð-
um við merkri bók Hallgríms Helgasonar rithöfundar. Þær deilur snerta þó í litlu
stöðu Halldórs sem mesta rithöfundar síðustu aldar á Íslandi.“ Sjá „Áramótaávarp
forsætisráðherra 2001“, Reykjavík 2001, sótt 10. júní 2012 af http://www.forsaetis-
raduneyti.is/radherra/raedur-og-greinar/nr/360.
„OG EFTIR SITJUM VIð MEð SEKTARKENND Í BRJÓSTI“