Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Blaðsíða 186
186
segir það „væri synd ef lýðskrumarar legðu“ hana „undir sig“. Hún sé ekki
síður „gegn þeim sem alltaf dansa með […] en valdinu“.52 Gagnrýni Helga
Hjörvar líður fyrir það hversu heiftúðug hún er, auk þess sem hann virðist
gleyma að Samfylkingin dansaði með í ríkisstjórnarsamstarfinu 2007 og
2008. En greining Helga dregur þó skýrt fram hversu reikull Hallgrímur
getur verið í rásinni. Hugsanlega er þar að finna veikleika hans sem sam-
félagsrýnis. Hann er hrifnæmur og fljótur að velja sér málstað. En að sama
skapi gátu hvorki Samfylking né Sjálfstæðisflokkur gengið að stuðningi
hans sem vísum á útrásartímabilinu, en blind flokkshollusta er einmitt eitt
af því sem Hallgrímur gagnrýnir í „Baugi og bláu hendinni“.
Réttarhöldin yfir Hallgrími
Baugsstimpillinn hefur óneitanlega þvælst fyrir Hallgrími þegar hann
hefur reynt að takast á við kreppuna og fjarlægja sig enn frekar þeim sem
áttu þátt í falli landsins. Þrátt fyrir að hann væri fyrirferðarmikill í bús-
áhaldabyltingunni og mætti iðulega í fjölmiðla sem fulltrúi mótmælenda
þar sem hann lagði hart að Geir Haarde að segja af sér og hvatti til þess að
Davíð yrði rekinn úr Seðlabankanum, hafa jafnvel svokallaðir samherjar í
stjórnmálum eins og Helgi Hjörvar gert lítið úr þeim aðgerðum og gengið
svo langt að kenna þær við lýðskrum.
Fljótlega eftir krísuna tók Hallgrímur að skrifa greinar í dagblöð og
tímarit um þjóðfélagsástandið og ræða sína eigin blindu á þensluárunum. Í
október 2010 birtist ljóðið „Suit and Tie“ á You Tube í flutningi Hallgríms
en þar lýsir hann af miklum eldmóði andrúmsloftinu á Íslandi fyrir og eftir
hrun, svikum uppstrílaðra útrásarvíkinga og falli kapítalismans. önnur
ljóð eftir Hallgrím sem taka á þjóðfélagsástandinu eftir hrunið eru „Ísland
er land þitt“, þar sem hann snýr út úr óopinberum þjóðsöng Íslendinga, og
„Ég þekki þæga menn“ sem birtist í Tímariti Máls og menningar.53 Rætnar
athugasemdir um Hallgrím á netinu, t.d. við flutninginn á ljóðinu „Suit
and Tie“, þar sem hann er ásakaður um að vera sjálfur einn af gaurunum
52 Helgi Hjörvar, „Bæ, bæ, Nýi Hallgrímur“, bls. 24.
53 Hallgrímur rappaði textann við „Ísland er land þitt“. Silfur Egils 19. nóvember
2008. Sjá færslu Láru Hönnu Einarsdóttur, „Hallgrímur Helga rappar í Kiljunni“,
en hún birtir ljóðið í heild sinni á bloggi sínu. Sótt 4. apríl 2012 af http://blog.ey-
jan.is/larahanna/2008/11/20/hallgrimur-helga-rappar-i-kiljunni/. Sjá einnig Hall -
grímur Helgason, „Ég þekki þæga menn“, TMM 72/2011 [1], bls. 123.
ALDA BJöRK VALDIMARSDÓTTIR OG GUðNI ELÍSSON