Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Síða 187
187
í genginu,54 sýna hversu erfitt það reynist Hallgrími að endurmóta ímynd
sína eftir hrunið og hrista af sér útrásarstimpilinn.
Í skrifum sínum eftir efnahagshrunið leitar Hallgrímur svara við því
hver beri ábyrgðina um leið og hann útskýrir svokallaðan stuðning sinn við
Jón Ásgeir. Hann játar að hafa á sínum tíma hrifist af útrásarvíkingunum
og fullyrðir að í því sé hann á engan hátt frábrugðinn öðrum Íslendingum.
Þessi kenning sem er ekki alls kostar rétt, því að auðvitað voru til ein-
staklingar sem horfðu á útrásina gagnrýnum augum, er m.a. sett fram í
Fréttablaðinu í október 2008. Þar fjallar Hallgrímur um samábyrgð þjóð-
arinnar í kjölfar hrunsins:
Og eftir sitjum við með sektarkennd í brjósti. Því innst inni dáðumst
við öll að þessum greifum, þessum peninga-poppstjörnum. Við
fylgdumst agndofa með ævintýrum þeirra og horfðum hugfangin á
þegar þeir styrktu listir, menningu og góðgerðarstarf. Við höfðum
aldrei átt snjalla viðskiptamenn, ekki í þúsund ár, og hvað þá menn
sem unnu sigra í öðrum löndum.55
Hann lýsir því hvernig ungir Íslendingar hafi gengið hnarreistir um
Strikið í Kaupmannahöfn ári fyrir hrun: „útrásin hafði gefið okkur sjálfs-
traust“. Hallgrímur segir jafnframt: „Við sjáum það nú að þó að strákarnir
okkar væru klárir tefldu þeir of djarft.“ Af orðalaginu „strákarnir okkar“
sem iðulega er notað til að lýsa íslenska handboltalandsliðinu má álíta að
Íslendingar hafi séð útrásarvíkingana sem fulltrúa þjóðarinnar í keppnis-
íþrótt og að þeir væru að vinna sigra fyrir hennar hönd. Þrátt fyrir að þeir
hafi sett landið á hausinn heldur Hallgrímur því samt sem áður fram að
þeir hafi verið „klárir“ strákar og segir: „Nú eru hetjur gærdagsins skúrkar
dagsins í dag“.56
Í október 2008 er tungutak Hallgríms enn litað af orðræðu útrás-
arinnar. Hann talar ekki aðeins um „strákana okkar“, heldur lýsir þeim
sem „hetjum gærdagsins“. Víkingamyndmálið sem mótaði útrásarorðræð-
una alla hefur víða verið rætt, t.d. af Roger Boyes sem rekur í löngu máli
54 „Where you one of those suit and tie guys Hallgrímur?“, sótt 2. apríl 2012 af http://
www.youtube.com/all_comments?v=GC0pYaE0rRQ&page=1.
55 Hallgrímur Helgason, „Ísland er dautt. Lengi lifi Ísland!: þjóðarþrot í átján liðum“,
Fréttablaðið 25. október 2008, bls. 24, 26, hér bls. 24.
56 Hallgrímur Helgason, „Ísland er dautt. Lengi lifi Ísland!: þjóðarþrot í átján liðum“,
bls. 24.
„OG EFTIR SITJUM VIð MEð SEKTARKENND Í BRJÓSTI“