Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Side 190
190
Við erum bara með Seðlabankastjóra, sem ræður […] Svo bætast við
sögur um að Glitnir hefði beðið um aðstoð Seðlabanka í síðustu viku
en DO neitað honum um það, nema hann fengi að yfirtaka bankann.
Davíð yfirtekur banka Baugs ... Hversu traustvekjandi aðgerð er
það? Ekki mjög, eftir að stjórnarformaður Glitnis talar í viðtali við
Stöð 2 eins og bankanum hafi verið rænt af sér.63
Orð eins og rán og þjóðnýting bera því vitni að Hallgrímur hafi ekki
verið sér meðvitaður um alvarleika stöðunnar, en í þeirri staðreynd liggur
líklega veigamesta gagnrýnin á bréf hans. Hann sér ekki, viku fyrir fall
íslenska efnahagslífsins, að landið er nánast komið í þrot og les þjóðnýt-
inguna sem enn eitt dæmið um valdbeitingu Davíðs sem hann stillir upp
gegn valdalausri Samfylkingu og „banka Baugs“. Bréfið sýnir ennfremur
að í september 2008 er Hallgrímur enn á þeirri sömu grunnskoðun og
sex árum áður að á Íslandi séu aðeins tvö lið og hann tekur sér stöðu
með „liðinu“, gegn Davíð og Sjálfstæðisflokknum. Greining Hallgríms
á íslenskum flokkadráttum er líklega rétt, en trúlega blindar hún hann
fyrir raunverulegri alvöru hlutanna, líkt og svo marga aðra sem þustu til
og keyptu sér hlutabréf í Glitni og Landsbankanum vikuna fyrir hrunið,
fullvissir um að Baugsauðurinn yrði nú færður í hendur Björgólfsfeðga
sem voru þóknanlegir Sjálfstæðisflokknum.64 Landið var á þessum tíma á
barmi hengiflugsins.
Ekki má heldur gleyma að enginn munur var á hugmyndafræði hinna
stríðandi fylkinga, þær voru jafn andlýðræðislegar í grunninn. Hér sem
fyrr gerir Hallgrímur sig því sekan um að „gagnrýna aðeins til hálfs“, eins
og hann viðurkenndi sjálfur síðar.
63 „Sofnaði í lýðræðisríki en vaknaði í konungsríki“, 29. september 2008, sótt 4.
apríl 2012 af http://www.visir.is/sofnadi-i-lydraedisriki-en-vaknadi-i-konungsriki/
article/2008751462230.
64 Sjá t.d. frétt á Eyjunni um hóp einstaklinga sem vorið 2012 höfðuðu mál gegn
íslenska ríkinu eftir að hafa keypt hluti í Glitni strax eftir yfirtökuna. Þeir halda
því fram að ríkið hafi vitað að bankinn var handónýtur en þrátt fyrir það „gefið út
yfirlýsingar um að bankinn stæði vel og að óhætt væri að eiga í viðskiptum með
hlutabréf bankans“. Sjá „Höfða skaðabótamál vegna hlutabréfakaupa í Glitni eftir
þjóðnýtingu – „Vissu að bankinn var handónýtur““, 10. apríl 2012 sótt 11. apríl
2012 af http://eyjan.is/2012/04/10/hofda-skadabotamal-vegna-hlutabrefakaupa-
i-glitni-eftir-thjodnytingu/.
ALDA BJöRK VALDIMARSDÓTTIR OG GUðNI ELÍSSON