Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Blaðsíða 192
192
undan vægi Halldórs í íslenskum bókmenntum af hægri öflunum um langt
skeið á kaldastríðsárunum.
Höfund Íslands má í þessu ljósi greina sem atlögu að höfundarnafni
Halldórs Laxness þar sem staðgengill nóbelsskáldsins, Einar J. Grímsson,
er látinn svara fyrir skrif sín og gjörðir. Í Rithöfundi Íslands var leitað í
smiðju bókmenntafræðingsins Seáns Burke, en í bók sinni The Death and
Return of the Author glímir hann við ábyrgð höfunda með því að varpa fram
spurningum um tilgang og samfellu skrifa þeirra. Í slíkri umræðu koma
upp sex álitamál að mati Burkes: 1) Ætlun. Meinti höfundurinn það sem
hann sagði? Sagði hann það sem hann meinti? 2) Kennivald. Hver er staða
rithöfundarins? Skiptir allt máli sem hann hefur skrifað? 3) Ævisögulegt
samhengi er mikilvægt og má nota til að skilgreina sakleysi eða sekt. 4)
Höf undurinn ber ábyrgð á skrifum sínum. 5) Er hægt að lesa skrifin í
ljósi höfundarverksins alls, er hugmyndafræðileg samfella í skrifunum? 6)
Sjálfsævisögulegar skýringar.67
Allir ofangreindir þættir hafa áhrif á mat lesenda á greinum og skáld-
verkum Hallgríms og munu gera um ókomna tíð. Umræðan um ætlan
Hallgríms í aðdraganda hrunsins tengist m.a. ásökunum um að hann hafi
verið leigupenni útrásarinnar sem hafi látið glepjast af óhófi og munaði
íslenskrar hástéttar. Gagnrýnendum Hallgríms hefur þó aldrei tekist að
sýna fram á hagsmunatengsl Hallgríms við íslenska útrásarvíkinga, því að
fráleitt er að lesa UNICEF-málverkið sem dæmi um dekur Hallgríms við
íslenskan aðal. Hallgrímur hefur sjálfur lýst ásökunum um leynda hags-
muni svo:
Á fyrstu mánuðunum eftir hrun fékk ég ýmsa tölvupósta frá hinum
og þessum flugumönnum Flokksins þar sem ég var beðinn að gera
grein fyrir öllum þeim greiðslum sem ég hafði fengið frá Baugi.
Þeim reyndist auðvelt að svara: 0 kr. Ég var aldrei þar „á launaskrá“,
vann aldrei nein verkefni fyrir þá, þáði hvorki flugferðir né styrki,
seldi þeim ekki einu sinni málverk. Í kjölfarið barst þá jafnan ítrekun
og ég var minntur á „ómálaða málverkið“ sem slegið var á stórlaxa-
uppboði fyrir 21 milljón.68
67 Seán Burke, The Death and Return of the Author: Criticism and Subjectivity in
Barthes, Foucault and Derrida, Edinborg og Oxford: Edinburgh University Press,
1992, bls. 4–6.
68 Hallgrímur Helgason, „Draugur Group – minningarorð frá Baugspenna“, bls.
11–12.
ALDA BJöRK VALDIMARSDÓTTIR OG GUðNI ELÍSSON