Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Qupperneq 194
194
til þess að taka ábyrgð á orðum sínum og aðgerðum (eða aðgerðaleysi) fyrir
hrun. Það hefur Hallgrímur einn gert íslenskra listamanna.
Mikilvægasta varnarskjal Hallgríms er líklega höfundarverk hans, en
þar er erfitt að finna nokkurn stuðning við útrásarhugmyndafræðina eða
lífsstílinn sem nýríkir Íslendingar tileinkuðu sér. Meira fer fyrir gagnrýni
á slíkan lifnaðarhátt í skáldverkunum frá því fyrir hrun, en þau snúast
gjarnan um ádeilur á ofgnótt og neyslu. Hallgrímur hefur jafnframt skrifað
nokkur ljóð þar sem hann leitast við að gera upp hrunið og á líklega eftir
að skrifa stærri skáldverk sem taka á hugmyndafræði útrásaráranna. Þessi
verk munu öll hafa áhrif á það hvernig höfundargildi Hallgríms verður
túlkað í samhengi hrunsins, jafnt af andstæðingum hans sem samherjum.
Síðast en ekki síst hefur Hallgrímur skrifað sjálfsævisögulegar réttlæting-
ar um hrunið þar sem hann m.a. útskýrir fyrri skrif sín í ljósi sögunnar og
tekur afstöðu til heitisins „Baugspenni“. Sú gagnrýni að Hallgrímur hafi
lýst yfir stuðningi við efnahagskerfi sem leiddi þjóðina fram af bjargbrún-
inni gerir hann samsekan með meirihluta íslensku þjóðarinnar, eins og
hann hefur sjálfur viðurkennt.70 Þótt Hallgrímur hafi ofmetið viðskiptavit
íslenskra bankamanna og heiðarleika hinna nýju viðskiptaafla breytir það
ekki heldur þeirri staðreynd að hann hafði rétt fyrir sér þegar hann varaði
við því í „Baugi og bláu hendinni“ að stjórnmálamenn stýrðu um of einka-
væðingunni á kostnað vandaðra vinnubragða. Aðferðin við sölu íslensku
bankanna stuttu síðar er óneitanlega einn helsti orsakavaldur hrunsins,
eins og margoft hefur verið bent á og sýnir að taka hefði mátt mark á þess-
um varnaðarorðum.71
Hallgrímur er eini íslenski rithöfundurinn sem viðurkennir að hafa smit-
ast af tíðarandanum sem ríkti á Íslandi góðærisins. Hann fylltist stolti
yfir „velgengni“ bankamanna og tók hugsanlega ranga afstöðu til mála í
óheilnæmu pólitísku andrúmslofti þensluáranna. Að mati Hallgríms bera
70 Hallgrímur Helgason, „Ísland er dautt, lengi lifi Ísland!: þjóðarþrot í átján liðum“,
bls. 24 og 26.
71 Sjá t.d. Þorkell Sigurlaugsson, Ný framtíðarsýn: nýir stjórnunarhættir við endurreisn
efnahagslífsins, Reykjavík: Bókafélagið Ugla, 2009, bls. 71; Roger Boyes, Meltdown
Iceland, bls. 35–42, 44. Guðni Elísson ræðir þennan þátt einnig í „Vogun vinnur …“,
bls. 120. Í Skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis er fjallað ítarlega og á gagnrýninn
hátt um sölu bankanna á þessum forsendum. Sjá Páll Hreinsson, Tryggvi Gunn-
arsson og Sigríður Benediktsdóttir, Aðdragandi og orsakir falls íslensku bankanna
2008 og tengdir atburðir, Reykjavík: Rannsóknarnefnd Alþingis, 2010, 1. bindi, bls.
244–271, sérstaklega bls. 264–268.
ALDA BJöRK VALDIMARSDÓTTIR OG GUðNI ELÍSSON