Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Page 196
196
tekið beinan þátt í því hegðunarmynstri sem svo mjög er gagnrýnt í rann-
sóknarskýrslunni.“74
Allt bendir til þess að enn verði um nokkurt skeið deilt hart um ábyrgð
Hallgríms Helgasonar í aðdraganda hrunsins. Hann á sér sína hatrömmu
andstæðinga en líka eindregna stuðningsmenn. Í júnímánuði 2012 lýsti rit-
stjórn DV því yfir að Hallgrímur væri sér „einstaklega meðvitaður þegar
kemur að pólitík“ og segir hann hafa verið „einn helst[a] andófsma[nninn]
á valdatíma Davíðs Oddssonar“. Þetta hafi Hallgrímur þurft að borga
fyrir, en hann „sætti ógnunum fyrir vikið eins og bláa höndin vísar til. Þá
barði Hallgrímur bíl Geirs Haarde, þáverandi forsætisráðherra, að utan
þegar búsáhaldabyltingin stóð sem hæst.“75 Degi síðar mótmælti Björn
Bjarnason, fyrrverandi mennta- og dómsmálaráðherra, þessari túlkun á
heimasíðu sinni. Hann segir suma miðla „gangast upp í firringu og furðu-
legheitum“ og rekur síðan hvernig Hallgrímur hafi hvatt til „pólitískrar
baráttu“ í þágu Baugs og að hann hafi síðar viðurkennt „að hann hafi lifað
í blekkingu um eðli Baugsmiðlanna“.76
Sjónarmiðin tvö virðast ósættanleg enda tilheyra þau hinum pólitíska
umræðuvettvangi. Markmiðið er fyrst og fremst að skipa einstaklingum
í ákveðið lið, að stimpla þá fremur en að greina hinar raunverulegu hug-
myndir sem búa að baki skoðunum þeirra. En það er reyndar líka einkenni
hinnar opinberu umræðu þar sem gagnrýni er ávallt tengd flokkspóli-
tískum hagsmunum og því blessunarlega ómarktæk í augum atvinnu-
stjórnmálamanna. Hallgrímur Helgason orðaði það eftirminnilega svo:
„Því miður fer íslensk samfélagsumræða fram í svo þröngum kústaskáp að
þegar maður bendir í eitt hornið er maður óvart staddur í öðru.“77
74 Guðni Elísson, „Ísland anno núll: rannsóknarskýrslan, spuninn, ábyrgðin og stað-
leysustjórnmál“, TMM 71/2010 [2], bls. 24–40, hér bls. 35.
75 „„Rammruglaður“ forseti“, Sandkorn, DV 15.–17. júní 2012, bls. 22.
76 Björn Bjarnason, „Laugardagur 16.06.12“, sótt 16. júní 2012 af http://bjorn.blog.
is/blog/bjorn/entry/1245285/.
77 Hallgrímur Helgason, „Ísland er dautt. Lengi lifi Ísland!: þjóðarþrot í átján liðum“,
Fréttablaðið 25. október 2008, bls. 26.
ALDA BJöRK VALDIMARSDÓTTIR OG GUðNI ELÍSSON