Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Qupperneq 200
200
meðal annars að iðnbyltingin og framþróun í tækni og vísindum ættu sök á því
að maðurinn hefði leiðst inn á þá braut að eyðileggja og spilla náttúrunni.3 Í
leit að frekari skýringum á framferði mannsins í hinum vestræna heimi gagn-
vart náttúrunni staðnæmdist White einnig við viðhorf í kristni til náttúrunnar
og staðhæfði að í kristinni guðfræði og siðfræði mætti finna mannmiðlæga og
jafnvel fjandsamlega afstöðu til náttúrunnar. Þá afstöðu taldi hann eiga rætur
í biblíulegum hugmyndum um guðsmynd mannsins: Guðsmyndarlíkinguna
hefði verið farið að túlka í kristinni hefð sem yfirburði mannsins gagnvart
öðrum lífverum vegna þeirrar skynsemi sem hann er gæddur.4 Margir guð-
fræðingar hafa tekið þessa gagnrýni alvarlega og má segja að fá svið kristinnar
guðfræði hafi blómstrað á borð við vistguðfræðina (e. eco-theology) að undan-
förnu.5 Í hnotskurn má segja að fjölmargir samtíma guðfræðingar taki undir
með Lynn White og styðji staðhæfingu hans um að ranghugmyndir mannsins
um stöðu sína í heiminum eigi sinn þátt í umhverfisspjöllum, eyðileggingu
náttúrunnar, vistkerfisins og loftlagsins um víða veröld. Fæstir vilja þó skella
allri skuldinni á kristna hugmyndafræði og guðfræði.6
Hvernig má það vera að umhverfisvandamál séu guðfræðileg viðfangsefni?
Snýst ekki guðfræðin um andleg málefni fyrst og fremst? Er líklegt að hún geti
haft eitthvað fram að færa sem auki líkurnar á því að fólkið sem nú lifir, og
ekki síður komandi kynslóðir, geti áfram búið á jörðinni í sátt og samlyndi við
náttúruna? Því er fyrst til að svara að fjölmargir þekktir kristnir guðfræðingar
hafa velt viðfangsefninu fyrir sér og sökkt sér ofan í vistfræði og þá heildstæðu
þekkingu sem þar má finna um órofa tengsl allra lífvera.7 Þróun manns og
heims hefur löngum verið guðfræðingum áskorun og í hnotskurn má segja að
ögrun vistfræðinnar birtist ekki síst í skrifum þeirra um tengslin milli Guðs,
náttúru og manns. Hið nýja verkefni sem margir guðfræðingar hafa tekist á
hendur felst því í að endurhugsa kristnar kenningar um heiminn og náttúruna,
3 Lynn White, „The Historical Roots of Our Ecological Crisis“, bls. 185–187.
4 Sama rit, bls. 188–191.
5 Sólveig Anna Bóasdóttir, „Loftslagsbreytingar í guðfræði: um breytta guðsmynd í
kristinni femínískri guðfræði“, Ritið 3/2011, bls. 99–118.
6 Larry L. Rasmussen, Earth Community Earth Ethics, Maryknoll, New York: Orbis
Books, 1996; Leonardo Boff, Ecology & Liberation: A New Paradigm, Maryknoll,
New York: Orbis Books, 1995; Leonardo Boff, Cry of the Earth, Cry of the Poor,
Maryknoll, New York: Orbis Books, 1997.
7 This Sacred Earth. Religion: Nature, Environment, ritstj. Roger S. Gottlieb, New
York/London: Routledge, 1996; Christianity and Ecology: Seeking the Well-Being of
Earth and Humans, ritstj. Dieter T. Hessel og Rosemary Radford Ruether, Cam-
bridge, Massachusetts: Harvard University Press, 2000.
ELIZABETH A. JOHNSON