Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Qupperneq 202
202
lögmál daglegs lífs og loks er réttlát þátttaka fjöldans í ákvörðunum er varða
framtíð jarðarinnar og náttúrunnar nauðsynleg ef tryggja á jafnan aðgang allra
á jörðinni að hinu góða lífi.11
Látum hér nóg sagt á almennari nótum um kristna vistguðfræði og snúum
okkur að skrifum Elizabeth A. Johnson og grein hennar, „Glötun og endur-
heimt sköpunarverksins í kristinni hefð“.12 Johnson er bandarískur prófessor
í samstæðilegri guðfræði (trúfræði og siðfræði) við Jesúítaháskólann Fordham
University í New York. Í skrifum hennar um vistguðfræði kemur fram að hún
þekkir grein Whites og tekur í sama streng að miklu leyti. Þannig er hún t.d.
sammála honum um að túlkun kristninnar á stöðu mannsins hafi oft og tíðum
verið mannmiðlæg. Þá er það skoðun hennar að það sé tímabært að guðfræðin
taki mið af þeirri sýn sem nútíma vistfræði birtir af því hvernig allt sé samtengt
í vistkerfinu og hvað öðru háð. Maðurinn sé ekki einangruð lífvera, heldur
hlekkur í vistkerfi, flóknu samhengi sem tengi menn, dýr og plöntur. Velferð
mannsins og frelsun frá synd og sekt verði að setja í stærra samhengi en gert
hafi verið. Gegn hefðbundinni mannmiðlægri kristinni guðfræði boðar hún
það sem kalla má lífhyggjuguðfræði og siðfræði. Lífhyggjan leggur áherslu á
að náttúran og lifandi verur aðrar en maðurinn hafi líka sjálfstætt gildi. Efla
þurfi velferð dýra og lífríkisins, sem sagt vistkerfisins í heild. Þessa skoðun,
að allt lífríkið hafi sjálfstætt gildi, má að hennar mati rökstyðja út frá kristinni
sköpunartrú: Ekki aðeins allir menn, heldur allt líf er skapað af Guði. Allt líf er
gott í sjálfu sér, ekki bara líf mannsins.13
Elizabeth A. Johnson bendir á merkilegt atriði í grein sinni. Guðfræðingar
eru gleymnir og geta hreinlega misst minnið. Það sem Lynn White benti á
varðandi mannmiðlægni kristninnar er nefnilega bara rétt að hluta til, áréttar
hún. Fyrstu fimmtán hundruð ár kristni hafði náttúran og jörðin allt aðra
stöðu í kristinni guðfræði en hún hefur nú á tímum. Breytingin varð fyrir
11 Dieter T. Hessel og Rosemary Radford Ruether, „Introduction: Current thought
on Christianity and Ecology“, Christianity and Ecology: Seeking the Well-Being of
Earth and Humans, ritstj. Dieter T. Hessel og Rosemary Radford Ruether, Cam-
bridge, Massachusetts: Harvard University Press, 2000, bls. xxxiii–xlvii.
12 Grein Johnson fjallar meira um náttúrusýn og mannskilning en guðsskilning. Hug-
myndir vestrænnar menningar um Guð koma þó umhverfismálunum einnig við og
má þar t.d. vísa til skrifa Sallie McFague. Þar gagnrýnir hún hina sterku, vestrænu
aðgreiningu milli Guðs og heims og býður þess í stað upp á nýtt guðsmyndarlíkan
þar sem heimurinn verður það sama og líkami Guðs. Sjá nánar: Sólveig Anna
Bóasdóttir, „Loftslagsbreytingar í guðfræði“, Ritið 3/2011.
13 Elizabeth A. Johnson, „Losing and Finding Creation in the Christian Tradition“,
Christianity and Ecology: Seeking the Well-Being of Earth and Humans, ritstj. Dieter
T. Hessel og Rosemary Radford Ruether, Cambridge, Massachusetts: Harvard
University Press, 2000, bls. 3–21.
ELIZABETH A. JOHNSON