Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Blaðsíða 3
3
Ritið 1/2013, bls. 3–8
„Minni hefur ólíka merkingu á ólíkum tímum,“ segir minnisfræðingurinn
Susannah Radstone.1 Minnið á sér sögu og mótast af sögu. Hver og einn
menningarhópur man fortíð sína, en það eru staðsetning og sviðsetning
þessarar upprifjunar á mismunandi tímum sem minnisfræðingar kanna.
Við þurfum að muna, ekki síst á tímum hraðrar tækni og fólksflutn-
inga. En við þurfum líka að gleyma og sjaldan gerum við annað án hins.
En það vekur líka spurningu um hvað við kærum okkur um að muna.
Minnisvarðar eru skýrt dæmi um þetta: Þeir, eins og kemur fram í mynd-
um og lýsingu Ketils Kristinssonar í myndaþætti þessa heftis, eru reistir
til að varðveita minningar, en minna þar með ekki síður á óstöðugleika
minnisins og mátt gleymskunnar. Í greininni um minnisvarða og helfarar-
minni á fjölmiðlaöld, sem er þýðing þessa heftis, vitnar Andreas Huyssen
í orð Roberts Musil um að ekkert í heiminum sé jafn ósýnilegt og minnis-
varðar,2 en Huyssen hefur fjallað um „minnissprengjuna“ á öld upplýsinga-
tækninnar sem viðbrögð við gleymskunni sem fylgir henni.
Minnisvarðar sýna okkur líka pólitíska hlið minnis og gleymsku.
Hverju reisum við minnisvarða og af hverju – og hverju kjósum við helst
að gleyma? Hvað verður um minni þjóðar eftir stríð, áföll eða kreppu;
hvers konar úrvinnsla á fortíðinni á sér stað eða á sér ekki stað? Hvert
er samband þjóðar við fortíð sína: lærir hún af henni, eða vill hún sælu
algleymis – minnisleysis – svo sagan geti endurtekið sig? Þessar spurningar
sýna að rannsóknir á minni og gleymsku eiga brýnt erindi við okkur í dag
– ekki síður á Íslandi en á alþjóðlegum vettvangi.
1 „Working with Memory: An Introduction“, Memory and Methodology, ritstj. Susan-
nah Radstone, Oxford og New York: Berg, 2000, bls. 1–24, hér bls. 3.
2 Robert Musil, „Nachlaß zu Lebzeiten“, Prosa, Dramen, späte Briefe, ritstj. Adolf
Frisé, Hamburg: Rowohlt, 1957, bls. 480.
Af minni og gleymsku