Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Síða 4
4
DAISY NEIJMANN OG GUNNÞÓRUNN GUðMUNDSDÓTTIR
En minni hefur verið mönnum hugleikið síðan í fornöld, þótt umræð-
an þá hafi gjarnan einblínt á ýmiss konar minnistækni sem beitt var til að
varðveita og kalla fram þekkingu á tímum þar sem ritmenning var rétt farin
að ryðja sér til rúms.3 En það er í raun ekki fyrr en í kjölfar nútímavæðing-
ar í vestrænni menningu og þeirra félagslegu, efnahagslegu og tæknilegu
afleiðinga sem nútímaþróun hafði í för með sér, að minnið öðlast nýja
merkingu og verður jafnframt að vandamáli.4 Félagsfræðingar á borð við
Richard Terdiman og Paul Connerton tala jafnvel um „minniskreppu“,
þegar fólk finnur fyrir djúpum aðskilnaði fortíðar og nútíðar, samhengi
tímans og sjálfsins rofnar, og menn fara að upplifa fortíðina sem óörugga.
Þar með truflast minnið og minningarferlið flækist.5 Um leið og menn
finna að fortíðin er að hverfa úr greipum þeirra og verða gleymskunni að
bráð, hafa þeir þörf fyrir að halda í hana eins fast og þeir geta. Nútíminn
verður fyrir ágangi fortíðarinnar. Nietzsche talaði um byrði fortíðarinnar
í þessu samhengi, þegar minningar verða svo yfirþyrmandi að þær ætla að
gleypa nútímann.
Fyrir rómantísku skáldin var minnið fyrst og fremst einstaklingsbundið
og tengt ímyndunarafli og innra lífi manns. Minningar gerðu fólki kleift
að ímynda sér og upplifa fortíðina, en þær gætu einnig komið fram og gert
vart við sig óumbeðið. Bókmenntagrein minnisins, sjálfsævisagan, sýnir
þær breytingar sem verða á hugmyndum fólks um minnið, en ávallt er það
nátengt veruhætti og sjálfsmynd – gleymska og minnisleysi grefur undan
sjálfsmynd og þekkjanleika manneskjunnar. Marcel Proust var undir áhrif-
um frá minniskenningum Henris Bergson í sínu mikla verki, Á la récherche
du temps perdu, þar sem hann setur fram hugmyndir sínar um tvískipt-
ingu minnisins í hið sjálfráða (fr. memoire volontaire) og hið ósjálfráða (fr.
memoire involontaire), sem virðist hafa þann mátt að færa honum fortíðina
aftur í óstöðvandi flæði minninga. Slíkt flæði minninga getur þó orðið að
byrði og minnið því að sjúkdómi. Walter Benjamin hefur lýst í skrifum
sínum hvernig nútíminn og hraði hans ræðst á okkur í mynd stöðugra
3 Um minnishugmyndir fornaldar, sjá t.d. Frances A. Yates, The Art of Memory,
London: Routledge, 1966 og Harald Weinrich, Lethe: Kunst und Kritik des
Vergessens, München: C. H. Beck, 1997.
4 Frekari umfjöllun um áhrif nútímavæðingar á minnismenningu má sjá hjá Daisy
Neijmann, „Hringsól um dulinn kjarna: Minni og gleymska í þríleik Ólafs Jóhanns
Sigurðssonar“, Ritið 1/2012, bls. 115–139.
5 Richard Terdiman, Present Past: Modernity and the Memory Crisis, Ithaca og London:
Cornell University Press, 1993, bls. 3; Paul Connerton, How Modernity Forgets,
Cambridge University Press, 2009, bls. 5.