Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Blaðsíða 40
40
hvernig líta má á minningar sem félagslega afurð alveg ofan í kjölinn.
Heildarhyggjan gefur okkur þannig frumspekilegar forsendur til að hugsa
um minningar sem félagslegan tilbúning.
Er heildarhyggja trúverðug afstaða? Er ekki farið of fljótt yfir sögu hér
og er sigurinn ekki helst til of auðveldur, of frumspekilegur? Og sannar
heildarhyggjan ekki of mikið ef það flýtur af henni að tveir menn geti ekki
haft sömu minningar, og, ef út í það er farið, að einn maður geti ekki haft
sömu minninguna á tveimur ólíkum tímum lífs síns? Það vantar kjöt á
beinið. Úr því leitast frásagnarsjálfsrökin við að bæta. Hingað til höfum við
ekki hugað mikið að því hvers vegna einstaklingar rifja upp æviminningar
sínar utan þess sem vitnað var til orða Schmidts um mikilvægi þess að búa
til heilsteypta sögu sem áheyrendur samþykkja. Gunnþórunn og Jón lögðu
einnig áherslu á mikilvægi áheyrenda. Frásagnarsjálfsrökin leggja á hinn
bóginn áherslu á mikilvægi sjálfssköpunar eða sköpun sjálfsmyndar (e.
construction of identity) við skilning á eðli minninga. Það er hér sem minn-
ingar og frásögn falla saman. Markmið upprifjunar, og frásagnar, er ekki
hlutlæg lýsing á því „Hvað Raunverulega Gerðist“,38 svo vitnað sé til orða
Freemans, heldur að skapa sjálfsmynd og sérstöðu þess sem rifjar upp.
Hér er ekki bara um það að ræða að frásögnin liti og hafi áhrif á fyrirfram-
gefið sjálf einstaklings. Hugmyndin er sú að ekki sé til neitt upprunalegt
sjálf óháð upprifjuninni/frásögninni, og því sé ekki hægt að bera frásögn
af sjálfinu saman við upprunalegt ástand sjálfsins til að skera úr um sann-
gildi frásagnarinnar. Sjálfið verður til við upprifjun og frásögn. Þessi rök
eru sterkari en heildarhyggjurökin að því leyti að þau byggjast á ákveðinni
efnislegri (e. substantive) hugmynd um eðli sjálfsins sem heimspekingar
hafa fært ýmis rök fyrir a.m.k. frá tímum Davids Hume. „Sú hugmynd að
hið óáþreifanlega fyrirbæri sem við köllum „sjálf“ sé tilbúningur er ekki
sérlega ný af nálinni“, skrifar Freeman, „Hume skrifaði um þetta, einnig
Nietzsche, Skinner og fjöldi annarra að auki.“39 Samkvæmt frásagnar-
sjálfsrökunum er það sem við búum til þegar við rifjum upp – sjálfið – í
grunninn ekki annað en skáldskapur.40
38 Mark Freeman, „Telling Stories“, bls. 271.
39 Mark Freeman, Rewriting the Self, bls. 11.
40 Ég legg ekki mat á þessi rök hér en vil benda á mikilvægi sannleika við sköp-
un frásagnarsjálfs (e. narrative self). Sjá Steve Matthews og Jeanette Kennett,
„Truth, Lies, and the Narrative Self“, American Philosophical Quarterly 49/2012,
bls. 301–315. Um höfunda sem rætt hafa um það hvernig frásögnin skapar sjálfs-
mynd okkar (e. narrative identity) má nefna Paul Ricoeur, Antonio Damasio og
Paul John Eakin.
RóbeRt H. HaRaLdsson