Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Blaðsíða 113
113
dóma. Allir sem einn furðuðu sig á því að bókin hefði verið endurútgefin
í samtímanum.
Benda má á að í nálgun á kynþáttahyggju hafa fræðimenn í auknum
mæli beint sjónum að hugmyndum um ‚hvítt‘ litaraft sem hluta af kyn-
þáttahyggju, þ.e. þeirri hugmynd að hægt sé að flokka mannkyn í aðgreinda
kynþætti.56 Forræði þess að vera flokkaður sem ,hvítur‘ byggist á ósýni-
leika, eins og Nirmal Puwar bendir á, því þeir einstaklingar sem fá stöðu
sem hvítir þurfa ekki að skilgreina sig eða hugsa um sig á þann hátt.57
Þetta þýðir að fræðimenn þurfa að hugsa á gagnrýninn hátt um hvernig
hvítur húðlitur hefur orðið viðmiðið og forræði ákveðinna hópa tekið sem
sjálfgefið og eðlilegt. Samhliða áherslu á endursköpun kynþáttahyggju í
samtímanum og hugmyndarinnar um hvítan húðlit er þó einnig mikilvægt
að skoða hvernig slíkar hugmyndir eru ólíkar í mismunandi sögulegu sam-
hengi. Hugmyndin um að vera hvítur hefur ekki nauðsynlega sömu merk-
ingu í Evrópu og í Bandaríkjunum þar sem tvíhyggjan hvítur og svartur
hefur verið mjög þýðingamikil vegna sögulegra aðstæðna.58 Í slíku sam-
hengi má líta á hugmyndir femínista um skörun (e. intersectionality) sem
sérlega gagnlegar en þær leggja áherslu á mikilvægi þess að taka tillit til
ólíkra þátta sjálfsmynda, svo sem litarafts, kyns, trúarbragða, kynhneigðar
og stéttarstöðu og skörunar þeirra.59 Eins og umfjöllun mín hér á eftir
endurspeglar er mjög mikilvægt að skoða umræðu um bókina út frá slíkum
hugmyndum.
Sýn þeirra sem verja endurútgáfuna
Raddir þeirra sem verja endurútgáfu bókarinnar eru augljóslega fjöl-
breyttar. Ég hef í greiningu minni flokkað sýn þeirra í þrjú stef sem eru
oft samtengd en ég tel gagnlegt að aðgreina þau til þess að öðlast dýpri
skilning á þeim þáttum sem þessum hópi fundust mikilvægir í tengslum
við endurútgáfuna. Algengasta stefið er útskýring á því af hverju ásakanir
56 John Hartigan Jr., „Establishing the Fact of Whiteness“, American Anthropologist
3/1997, bls. 495–505.
57 Nirmal Puwar, „Thinking About Making a Difference“, The British Journal of
Politics and International Relations 1/2004, bls. 65–80.
58 Philomena Essed og Sandra Trienkens, „Who wants to feel white? Race, Dutch
Culture and Contested Identities“, Ethnic and racial studies 1/2008, bls. 52–72.
59 K. Crenshaw, „Intersectionality and Identity Politics: Learning from Violence
against Women of Color“, Reconstructing Political Theory: Feminist Perspectives, ritstj.
M.L. Shanley og U. Narayan, University Park, PA: Pennsylvania State University
Press, 1994, bls. 178–193.
ENDURÚTGÁFA NEGRASTRÁKANNA