Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Blaðsíða 173
173
segir Connerton, er þátttaka sem kemst upp í vana. Athöfnin verður leið til að
muna, þorpið myndar sameiginlega sögu um sjálft sig, sögu sem allir eru hluti
af og allir taka þátt í og er um leið í sífelldri mótun.31
Bandaríski arkitektinn og hönnuðurinn Maya Lin, sem þekktust er fyrir
hönnun sína á minnismerki um bandaríska hermenn sem féllu í Víetnam-
stríðinu, hefur sagt: „Ég lít á verkin mín sem minnismerki, ekki minnisvarða;
í raun hef ég oft hugsað um þau sem and-minnisvarða [e. anti-monuments].
Ég held að ég búi ekki til hluti; ég bý til staði.“32 Það sem felst í þessari
aðgreiningu er að minnisvarði vísi fyrst og fremst til sjálfs sín (til hlutarins)
og hafi þar með allt aðra virkni en minnismerki sem vísi út á við (til stað-
arins). Maya Lin byggir hér á hugmyndinni um að minnisvarði sé sigurtákn en
minnismerki sé sorgarstaður. Marita Sturken hefur skilgreint þennan mismun
svona: „Minnisvarðar eru almennt ekki reistir til að minnast ósigra; þeirra,
sem beðið hafa ósigur og fallið, er minnst með minnismerkjum.“33 James
E. Young hefur aftur á móti bent á að slík aðgreining milli minnismerkis
og minnisvarða sé hæpin, enda geti minnisvarði verið hvort tveggja í senn,
minnisvarði um hetjudáð og minnismerki um sorglegan missi, allt eftir kring-
umstæðum. Samkvæmt skilgreiningu Youngs má segja um alla minnisvarða að
þeir séu minnismerki, aftur á móti sé ekki hægt að segja um öll minnismerki
að þau séu minnisvarðar.34 Í nýlegum bókum og fræðigreinum er yfirleitt ekki
gerður sérstakur greinarmunur milli þessara orða, þannig segir Erika Doss
(2010) að í dag séu þessi orð notuð jöfnum höndum, en þrátt fyrir það sé orðið
„minnismerki“ bæði mun meira notað og hafi víðari skírskotun en „minn-
isvarði“.35
Þegar Maya Lin talar um and-minnisvarða á hún við að minnismerki sín
séu staðir sem fólk geti notað. Minnismerki eiga samkvæmt Lin að þjóna
þeim tilgangi að losa um tilfinningar, bjóða til samtals og þátttöku. Að stilla
minnisvörðum upp sem andstæðum minnismerkja orkar tvímælis en á hinu er
enginn vafi að virkni minnismerkja helst að miklu leyti í hendur við hvar þau
standa og hvernig þau eru úr garði gerð. Minnisvarði ísfirskra sjómanna eftir
Ragnar Kjartansson var afhjúpaður á Eyrartúni 1974. Minningarreitur um
látna ástvini sem í fjarlægð hvíla var síðan afhjúpaður í Engidal við Skutulsfjörð
31 Sama rit, einkum bls. 4–5 og 17–21.
32 Hér vitnað eftir Avital Shein, Monuments as a National Practice: The Dilemmas of
Liberal Nationalism, netútgáfa á: http://drum.lib.umd.edu/ bitstream/1903/6892/1/
umi-umd-4386.pdf, 2007, bls. 50.
33 Sjá Marita Sturken, „The Wall, the Screen, and the Image: The Vietnam. Veterans
Memorial“, Tangled Memories: The Vietnam War, the Aids Epidemic, and the Politics
of Remembering, Berkeley, Los Angeles og London: University of California Press,
1997, bls. 44–84, hér bls. 47
34 James E. Young, The Texture of Memory, einkum bls. 2–6.
35 Erika Doss, Memorial Mania, bls. 38–39. Þessu til stuðnings bendir Doss á að þegar
kemur að því að reisa minningarmörk í Bandaríkjum nútímans sé langoftast talað
um minnismerki, ekki minnisvarða.
EYRNAMÖRK GLEYMSKUNNAR