Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Blaðsíða 135
135
af Vesturlandi og Vestfjörðum – Skarðverjar og Seldælir – en Skarðverjar
voru einmitt afkomendur Þorláks Ketilssonar í Hítardal.53
Aron endaði einnig sem hirðmaður Hákonar konungs Hákonarsonar.
Höfundur hefur þekkt Hákonar sögu, sem Sturla Þórðarson tók saman, og
vísar til hennar (II: 271). Það var konungur sem mælti yfir gröf hans, sam-
kvæmt Arons sögu:
„Þessi maðr, Aron, várr hirðmaðr, hefir víða farit ok [í] mörgum
mannraunum vel prófazt ok í mörgum lífsháska staddr verit, ok
viljum vér því orði á lúka,“ segir konungr, „at hér hefir látizt eitt it
bezta sverð af várum þegnum.“ (II: 278)
Sagan er því ekki einvörðungu tengd sögu Guðmundar góða, jafnvel þótt
höfundurinn endi hana með svofelldum orðum:
Ok er þat væntanda, at sál hans hafi gott heimili fengit, bæði fyrir
meðalgöngu vinar síns, ins góða Guðmundar biskups Arasonar, ok
einkanliga fyrir mjúkustu várs lausnara miskunn, hvers pílagrímr
hann má réttliga kallast fyrir þat, er hann heimsótti hans helgustu
gröf ok marga aðra heilaga staði. (II: 278)
En W. P. Ker benti einmitt á að Arons saga og Hrafns saga Sveinbjarnarsonar
væru bæði tengdar helgisögu Guðmundar biskups og hetjusögum eins og
Íslendingasögum.54 Þessar sögur eru því sambland bókmenntagreina.55
Arons saga gæti því ekki síður en Hrafns saga verið skrifuð meðal leikra
eins og lærðra – enda ekki víst að hún hafi verið sett saman í tengslum
við translatio Guðmundar góða.56 Skriftarkunnátta meðal leikra á 14. öld
mælir heldur ekki gegn því að maður úr þeirra röðum hafi haldið á penna
frekar en klerkur.57
53 Sigríður Beck, I kungens frånvaro: Formeringen av en isländsk aristokrati 1271–1387,
Göteborg: Göteborgs universitet, 2011, bls. 135–166.
54 W. P. Ker, Epic and Romance, bls. 256–258.
55 Sjá ennfremur Úlfar Bragason, „The Structure and Meaning of Hrafns saga Svein-
bjarnarsonar“, Scandinavian Studies 60/1988, bls. 267–292.
56 Sjá Stefán Karlsson, „Indledning“, bls. clxvii–clxviii; Guðrún P. Helgadóttir, „Intro-
duction“, Hrafns saga Sveinbjarnarsonar, útg. Guðrún P. Helgadóttir, Oxford:
Clarendon, 1987, bls. lxxxviii–xci.
57 Sjá Stefán Karlsson, „Ritun Reykjarfjarðarbókar. Excursus: Bókagerð bænda“,
Opuscula 4 (Bibliotheca Arnamagnæana, 30), Kaupmannahöfn: Munksgaard, 1970,
bls. 20–30.
aRons saGa