Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Blaðsíða 148
148
óteljandi.5 Sameiginlegar minningar verða þannig hluti af söguvitund
hóps þar sem þær taka á sig birtingarmynd almennrar og ríkjandi sögu-
skoðunar.6 Almenn söguskoðun beinist eðli málsins samkvæmt að megin-
dráttum sögunnar, rammanum sem rúmar einstaka atburði og gerir það að
verkum að myndbrot sem eitt sér er vandtúlkað verður hluti af heillegri
mynd. Þannig verða til „stórsögur“ (e. grand narratives) sem gefa fortíðinni
heildræna merkingu og geta orðið lífseigar. Þó að fræðimenn kunni að
hafna slíkum stórsögum lifa þær áfram sem hluti af ómeðvituðum sameig-
inlegum minningum hópa.7
Almenn söguskoðun kemur reglu á heim þar sem „við lifum án upp-
runalegra kennileita og leiðarhnoða innan um mergð týndra atburða“.8
Michel Foucault hefur bent á að sagnaritun fyrir daga háskólasagnfræði,
t.d. á miðöldum, hafi fyrst og fremst verið orðræða um vald. Sagnaritun
hafi styrkt valdakerfi með því að rifja upp fornan uppruna þeirra, sýna
dæmi um valdbeitingu og varðveita minningar um valdastofnanir.9 Þetta
mætti einnig heimfæra upp á söguskoðun í nútímanum. Paul Connerton
telur að ráðandi öfl noti sér jafnan þekkingu og rannsóknir á fortíðinni
með virkum hætti til að móta hegðun og ákvarðanatöku.10
Gera þarf skýran greinarmun á sameiginlegum minningum og minn-
ingum einstaklinga hvað varðar persónulega upplifun. Í sameiginlegum
minningum hóps felst ekki að sérhver sem tilheyrir hópnum hafi lifað
þann atburð eða það ferli sem geymist í minningunni. Þvert á móti getur
verið að enginn sem tilheyrir hópnum hafi lifað tiltekna atburði en minn-
ingin sé eigi að síður til staðar. Þannig var landnámið meðal Íslendinga
löngu afstaðið ferli þegar fyrstu frásagnir um það voru skráðar á bókfell
á fyrri hluta 12. aldar. Enginn þeirra sem varðveitti minninguna um það
5 Sjá t.d. Jeffrey K. Olick og Joyce Robbins, „Social Memory Studies: From “Collec-
tive Memory“ to the Historical Sociology of Mnemonic Practices“, Annual Review
of Sociology 24/1998, bls. 105–140, hér bls. 126–128.
6 Hér þarf að gera greinarmun á ríkjandi söguskoðun og gagnrýnum sagnfræði-
rannsóknum sem snúast um að taka afstöðu til fortíðarinnar á grundvelli tiltækra
heimilda, sjá Connerton, How Societies Remember, bls. 13–14.
7 Sama rit, bls. 1.
8 Michel Foucault, Alsæi, vald og þekking. Úrval greina og bókakafla, þýð. Björn Þor-
steinsson, Garðar Baldvinsson og Sigurður Ingólfsson, Reykjavík: Bókmennta-
fræðistofnun Háskóla Íslands, 2005, bls. 229.
9 Michel Foucault, „Society Must Be Defended“. Lectures at the Collège de France
1975–1976, þýð. David Macey, New York: Picador, 2003, bls. 66–68.
10 Connerton, How Societies Remember, bls. 17–18.
sVeRRiR JaKobsson