Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Blaðsíða 39
39
Einn vandi óaðskiljanleikarakanna er að þau skýra ekki hvers vegna við
getum ekki greint á milli ytri áhrifa og þess sem er raunverulega okkar,
eiginlegar minningar. Freeman bendir ítrekað á hve víðtæk áhrif annarra
eru á hugarstarf okkar (minningar okkar) frá fyrstu tíð. Hann virðist leggja
svo sterkan skilning í hvað sé raunverulega okkar að ekkert getur fullnægt
því skilyrði. En getum við virkilega ekki haft óbjagaðar, einstakar minn-
ingar sem eru alfarið okkar? Hvað um þá minningu sveitastráks að fyrsti
smalahundur hans hafi heitið Spori? Getur hann ekki sýnt fram á að sú
minning sé alfarið hans, staðfesti t.d. dagbók hans eða bóndinn, faðir hans,
þá minningu? Hér koma heildarhyggjurökin til sögunnar. Þeim er ætlað að
losa um tengsl minninga við raunveruleikann á einu bretti. Með heildar-
hyggju er hér átt við þá afstöðu að heildin sé frumlægari en þeir einstöku
hlutar sem mynda heildina. Hið einstaka er spunnið út frá heildinni, sam-
kvæmt þessari hyggju, en ekki heildin út frá hinu einstaka. Í grein um
minningar sem félagslegan tilbúning, hafnar Siegfried J. Schmidt því að
tengja minnið við raunveruleikann, það hvernig hlutirnir voru í raun og
veru. Í staðinn leggur hann til eftirfarandi skýringartilgátu:
Röð atburða í frásögninni er í grunninn ákvörðuð af [a function of]
frásögninni en ekki af röð atburðanna sjálfra, þar sem frásagnir miða
að því að búa til heilsteyptar sögur sem áheyrendur samþykkja.36
Samkvæmt þessari heildarhyggju um minningar er ekki gott að sjá hvaða
merkingu það hefur að tengja eina minningu við einn tiltekinn atburð í
æsku líkt og við gerum þegar við segjum að tveir einstaklingar deili sömu
minningum. Schmidt virðist samþykkja þessa niðurstöðu því hann segir
að „minningar um „hið sama“ [séu] alls ekki sömu minningarnar“.37 Líkt
og sjá má eru þessi rök tengd einum af óaðskiljanleikarökum Freemans,
nefnilega þeim að frásagnarramminn eða frásagnarhefðin sé óaðskiljanleg-
ur hluti minninga. Frásagnarramminn (e. narrative schemata) í skilningi
Schmidts er greyptur í dýpstu lög mannshugans með félagsmótun. Hér
er þó ekki bara um það að ræða að ramminn hafi áhrif á það hvernig
við komum minningum okkar í orð (með frásögn) líkt og hjá Freeman.
Frásagnarrammi Schmidts mótar líka alla úrvinnslu minninga áður en
þær eru orðaðar (e. pre-verbal elaboration). Sú afstaða Schmidts skýrir
36 Siegfried J. Schmidt, „Memory and Remembrance: A Constructivist Approach“,
A Companion to Cultural Memory Studies, ritstj. Astrid Erll og Ansgar Nünning,
Berlín: De Gruyter, 2010, bls. 191–201, hér bls. 193.
37 Sama rit, bls. 193.
MINNINGAR SEM FÉLAGSLEGUR TILBÚNINGUR