Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Qupperneq 35
35
hið sama gildi ekki um allar sjálfsævisögur. Eru ekki allar „sannar“ sjálfs-
ævisögur afbakanir? „Hljóta sjálfsævisögur að ljúga?“ spyr Freeman.19
Hins vegar má stytta bilið milli hins sanna (sjálfsævisögu/minninga) og
hins logna (falsana/tilbúnings) með því að upphefja hið logna. Hið logna
er þá líka í einhverjum skilningi satt. Í þessu samhengi má nefna viðbrögð
við sjálfsævisögu Binjamins Wilkomirski sem gefin var út í Þýskalandi
árið 1995 en hún lýsir meintri dvöl hans í útrýmingarbúðum nasista á
barnsaldri. Í ljós kom að sjálfsævisagan var uppspuni. Wilkomirski, sem
réttu nafni heitir Bruno Dössekker, hafði aldrei verið í útrýmingarbúðum.
Í grein um þessa upplognu sögu, bendir Gunnþórunn Guðmundsdóttir
á eftirfarandi: „Sumir fræðimenn hafa tekið þann pól í hæðina að Bruno
Dösseker hafi augljóslega átt skelfilega æsku og textinn lýsi gríðarlegu
áfalli af einhverju tagi, sem hann yfirfæri á helförina, en það sé þá undir-
liggjandi sannleikur í vitnisburðinum.“20
Ekki er erfitt að finna dæmi um slíka upphafningu hins logna, jafnvel
þegar ósannindin eru helber fjarstæða. Í nýlegri grein, „The Seventh Veil:
Feminism, Recovered Memory, and the Politics of the Unconscious“,
fjallar Janice Haaken um sérkennilegan kafla í sögu Bandaríkjanna þegar
fjöldi einstaklinga „rifjaði upp“ skipulega og grófa sataníska misnotkun
sem þeir áttu að hafa orðið fyrir í æsku, oft af hendi hópa, jafnvel heilu
bæjarfélaganna, en síðan bælt. Rekur hún nokkra þætti sem hún telur að
skýri hvers vegna upplýst fólk hafi við lok níunda áratugar 20. aldar verið
ginnkeypt fyrir svo öfgakenndum lygasögum. Talar hún m.a. um menn-
ingu trúgirninnar (e. culture of belief) í því samhengi.21 En þegar kemur
að því að meta sanngildi þessara fjarstæðukenndu „upprifjana“ um sat-
aníska misnotkun, varar Haaken við því „að markalínur hins sanna og hins
ósanna séu dregnar með of afgerandi hætti“.22 Hún skýrir varnaðarorð sín
þannig:
Þótt lýsingar á satanískri misnotkun séu augljóslega órökréttar [irra-
tional], kunna þær að geyma dulda sögu um raunverulega misnotk-
un eða hrylling. En þær þjóna einnig þeim tilgangi að draga fram
19 Sama rit, bls. 271, leturbreyting þar.
20 Gunnþórunn Guðmundsdóttir, „Blekking og minni. Binjamin Wilkomirski og hel-
fararfrásagnir“, Ritið 3/2006, bls. 39–51, hér bls. 46.
21 Janice Haaken, „The Seventh Veil: Feminism, Recovered Memory, and the Politics
of the Unconscious“, Memory. Histories, Theories, Debates, bls. 428–441, hér bls.
437.
22 Sama rit, bls. 438.
MINNINGAR SEM FÉLAGSLEGUR TILBÚNINGUR