Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Blaðsíða 195
195
nefna það sem Virginia Valian kallar skema.23 Samkvæmt Valian er skema
eins konar hugmyndaklasi sem felur í sér hugtök yfir einstakling eða þá
flokk eða gerð einstaklinga. Skemað felur í sér væntingar til þess hvernig
einstaklingur af tiltekinni gerð muni hegða sér og hvaða eiginleika hann
hafi. Þannig höfum við skema fyrir konur, fyrir karla, fyrir heimspekinga,
gáfumenn, pípulagningamenn, forseta, hjúkrunarfræðinga og svo fram-
vegis. Skemað fyrir konur og skemað fyrir gáfumenn skarast frekar lítið.
Til einföldunar má orða það þannig að væntingar okkar til kvenna og
væntingar okkar til gáfumanna falli ekki vel saman.
Einhverjum kann að þykja þessi mynd af heimspekingum ósanngjörn
eða vafasöm. Til dæmis gæti einhver viljað minna á orð Sókratesar um að
hann vissi það eitt að hann vissi ekkert, sem heimspekingar hafi gjarnan
að leiðarljósi, auk þeirrar aðferðar Sókratesar að biðja viðmælanda sinn
um að útskýra þau hugtök eða fyrirbæri sem til umræðu eru fremur en að
þykjast vita allt um þau sjálfur. Það er einmitt algengt í heimspeki að tala
um að við skiljum ekki tiltekið atriði, það gangi ekki upp þannig að við
getum ekki almennilega vitað hvernig það er eða hvað það stendur fyrir.
Ef þetta einkennir hina heimspekilegu afstöðu, hvernig má það þá vera að
ég haldi því fram að heimspekingar þykist svona greindir? Eru þeir ekki
einmitt manna auðmjúkastir þegar greind er annars vegar, óhikandi við að
viðurkenna að þeir hvorki skilji né viti?
Svarið er að auðmýkt heimspekinganna beinist ekki að náunganum
heldur birtist hún andspænis einhverju miklu stærra, gagnvart ráðgátum
alheimsins. Heimspekingur sem segist ekkert vita er ekki (eða í flestum til-
vikum ekki) að gefa til kynna að hann skorti þekkingu sem aðrir í kringum
hann hafi, heldur er hann að halda því fram að við öll, mannkynið allt,
vitum í raun ósköp fátt. Hlutverk heimspekingsins er þarna að sjá í gegnum
þá tálsýn að við vitum eitthvað, að afhjúpa blekkinguna og benda á villurnar.
Og heimspekingur sem segist (í hinu heimspekilega samhengi) ekki skilja
tiltekið umræðuefni er ekki að lýsa því yfir að hann sé tregari en aðrir held-
ur er hann að segja að viðfangsefnið sé illskiljanlegt, ef ekki óskiljanlegt.
Sá sem heldur slíku fram þarf að ganga út frá því að hann hafi að minnsta
kosti sömu forsendur og aðrir til að skilja umræðuefnið. Þótt setningin
„Ég skil ekki það sem þú segir“ sé vissulega stundum notuð til merkis um
að sá sem hana mæli telji sig skilja minna en viðmælandinn þá er hún ekki
23 Virginia Valian, Why so Slow? The Advancement of Women, Cambridge, MA: MIT
Press, 1999.
ER HEIMSPEKIN KVENFJANDSAMLEG?