Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Blaðsíða 194
194
eins og því hvort áherslan á smáatriði sé tengd auknum kröfum um sérhæf-
ingu fremur en um yfirsýn.
Hvað þennan þátt varðar er ekki um að ræða beina kvenfjandsemi í
þeim skilningi að í mótherjaaðferðinni felist fjandsamleg viðhorf gagnvart
konum. Hann felur hins vegar í sér áhrif sem geta fælt konur frá heimspeki
í meiri mæli en karla og verða eitt af lóðunum á vogarskálina ásamt ýmsu
öðru sem hér er litið til. Vankantar mótherjaaðferðarinnar geta vissulega
haft ýmis fleiri neikvæð áhrif umfram þau að vera kvenfælandi.
Skemu, svindlarar og staðalímyndir
Heimspekinni er oft stillt upp, að minnsta kosti af heimspekingunum sjálf-
um, sem þeirri grein þar sem hugsunin er hvað tærust og þar sem lögmál
hugsunarinnar fá að njóta sín frjáls undan fordómum og glepjandi áhrifum
hins hversdagslega. Það þarf að vanda hverja hugsun og skoðun sem sett
er fram í heimspekilegri samræðu þarf að vera vel ígrunduð og yfirveg-
uð. Fátt er eins vandræðalegt og ósamkvæmni eða aðrar hugsunarvillur.
Þetta hljómar kannski eins og afbökun og að vissu leyti er lýsingin ýkt en
hún nær samt þeim anda sem svífur yfir vötnum heimspekinnar og þeim
kröfum sem heimspekingar reyna að gera til sjálfra sín til að geta staðið
undir nafni, sérstaklega eins og heimspeki er stunduð í háskólaumhverfi.
Það þykir mikilvægt innan heimspekinnar að koma gáfulega fyrir og fátt
þykir verra en að vera talinn heimskur, eða jafnvel bara að vera talinn
eitthvað minna en afburðagreindur. Þetta getur gert það að verkum að
margir heimspekinemar verða hræddir við að opna munninn af ótta við að
hljóma ekki nógu gáfulega, að segja eitthvað sem er kannski bara eitthvað
ósköp venjulegt og sjálfsagt, svo ekki sé minnst á ef einhverjum þætti það
heimskulegt.
Þetta getur auðvitað verið íþyngjandi fyrir marga en ýmislegt bendir
til þess að neikvæð áhrif á konur séu meiri. Rannsóknir benda til þess
að mat karla á eigin greind sé að meðaltali hærra en mat kvenna og jafn-
framt á fólk af báðum kynjum það til að meta greind karla meiri en kvenna
(með öðrum orðum: að telja karla greindari en konur).22 Hér er rétt að
22 Agata Syzmanowicz og Adrian Furnham, „Gender differences in self-estimates
of general, mathematical, spatial and verbal intelligence: Four meta-analyses“,
Learning and Individual Differences 5/2011, bls. 493–504; Beatrice Rammstedt og
Thomas H. Rammsayer, „Sex differences in self-estimates of different aspects of
intelligence“, Personality and Individual Differences 5/2000, bls. 869–880.
eyJa MaRGRét bRynJaRsdóttiR