Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Blaðsíða 87
87
Jónas Hallgrímsson frá fyrri hluta síðustu aldar – stytta Einars Jónssonar af
honum sem afhjúpuð var árið 1907 og beinaleifar hans sem fluttar voru frá
Kaupmannahöfn í þjóðargrafreitinn á Þingvöllum árið 1946 – eru íslensk
skólabókardæmi um slíka „endur-holdgun“ (e. re-membering).29 Með
almennari hætti má túlka þau áminningakerfi sem vísa til ódauðlegra ein-
staklinga svo að verið sé að safna aftur saman (e. re-collect) margháttuðum
leifum úr lífi viðkomandi – þeirra á meðal nöfnum, dagsetningum, mynd-
um, atvikum, stöðum, gripum og textum – og virkja þær í samtímanum. Frá
þessum sjónarhóli eru starfsemin á Hrauni í Öxnadal og útgáfa tíu þúsund
króna seðilsins tvær hliðar á sama peningi. Í fyrra tilvikinu er tilteknum stað
úr ævi Jónasar haldið til haga en í því síðara er andlitsmynd hans varðveitt.
Með hliðstæðum hætti er Dagur íslenskrar tungu, 16. nóvember, dæmi um
minningarmark sem heldur fæðingardegi skáldsins á lofti.
Borgaraleg trúarbrögð
Í grein sinni um endurritun, sem vitnað var til í inngangi, skilgreinir
André Lefevere hugtakið hugmyndafræði sem „heimsmynd“ eða ríkjandi
hugmyndir um hvað samfélagið eigi (eða megi) vera.30 Þau orð kallast á
við það sem slóvenski félagsfræðingurinn Thomas Luckmann hefur nefnt
ósýnileg trúarbrögð og skýrt sem „almennan táknræna veruleika“ eða
„hlutgerð merkingarkerfi sem tengja hversdagslega reynslu við „yfirskilvit-
legt“ svið veruleikans“.31 Luckmann lítur svo á að ósýnilegu trúarbrögðin
séu ekki andstæða sýnilegra trúarbragða heldur fremur sá hljómbotn sem
samræmir ólíkar athafnir á sviðum menningar, samskipta og hugsunar
í samfélaginu, þar með talið stjórnmál, einkalíf og trúariðkun. Sýnileiki
kristninnar í vestrænum samfélögum felst í því að þar annast afmarkaðar
stofnanir (kirkjur, söfnuðir, klaustur o.s.frv.) varðveislu og ræktun viðkom-
andi merkingarkerfis en ástæða þess að ósýnileg trúarbrögð eru nefnd því
nafni er, að sögn Luckmanns, sú að þar kemur engin ein áþreifanleg stofn-
un við sögu. Ósýnileg trúarbrögð eru í eðli sínu órætt fyrirbæri sem getur
snúist um almennar hugmyndir á borð við persónulegt sjálfstæði og kjarna-
29 Sjá nánar Jón Karl Helgason, Ferðalok og Jón Karl Helgason, „Manntafl sjálfstæðis-
baráttunnar. Hvernig rataði líkneski Jóns Sigurðssonar á Austurvöll?“, Andvari
136/2011, bls. 141–158 og Jón Karl Helgason, „Lárviðarskáld. Valið milli Bjarna
Thorarensen og Jónasar Hallgrímssonar“, Tímarit Máls og menningar 73:1/2012,
bls. 63–78.
30 André Lefevere, „Why Waste Our Time on Rewrites?“, bls. 226.
31 Sjá Thomas Luckmann, The Invisible Religion. The Problem of Religion in Modern
Society. London: The Macmillan Company, 1967, bls. 44.
STÓRI ÓDAUðLEIKINN