Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Blaðsíða 10
10
Ég hef valið þessi tvö dæmi sem grundvöll að umræðu um tvær birtingar-
myndir endurminningar. Annars vegar eru minningarstaðir sem sækja
merkingu sína í atburði sem þar hafa orðið og síðari kynslóðir telja sögulega
mikilvæga af ólíkum ástæðum. Hins vegar eru miðlar eða menningarleg
hlutgervi (þ. Objektivationen) sem styðja ekki aðeins við endurminninguna,
heldur gera hana jafnframt mögulega. Í ferðalýsingunum tveimur er um að
ræða tvenns konar hlutgervi: annars vegar er varðan, en tekið er sérstaklega
fram að hún sé ekki til staðar, hins vegar er bókmenntaleg úrvinnsla sem
er færð í letur og felld að hefð ferðalýsinga. Báðir þessir miðlar gegna
veigamiklu hlutverki í íslenskri ferðamenningu 20. aldar.
Í eftirfarandi umfjöllun hyggst ég beita hugtakinu „menningarlegt
minni“ (þ. kulturelles Gedächtnis), sem hjónin Jan og Aleida Assmann hafa
útfært í skrifum sínum á síðastliðnum árum, á þessa ólíku miðla endur-
minningarinnar. Hugtakið reynist gagnlegt þegar leitað er svara við þeirri
spurningu, hvaða sérstæða hlutverki þessir miðlar gegna í því sem kalla má
minnismenningu og hvernig þeir tengjast innbyrðis.
Minnismenning: gleymska og minning
Þegar rætt er um minnismenningu (þ. Erinnerungskultur) hér í framhald-
inu ber að hafa í huga að minningin felur ávallt í sér andstæðu sína, þ.e.
gleymskuna. Til að minning geti orðið til þarf annars vegar að velja úr, úti-
loka og bæla niður, hins vegar hvetur óttinn við gleymskuna oft til virkrar
endurminningar. Samkvæmt skilgreiningu Jans Assmann er minnismenn-
ing félagsleg skuldbinding sem tengist tilteknum þjóðfélagshópi og hverf-
ist um spurninguna: hverju megum við ekki gleyma?4 Svarið við þessari
spurningu leiðir okkur að kjarnanum í sjálfsmynd hópsins. Jan Assmann
lítur á minnismenningu sem altækt fyrirbæri og er ástæðan sú að þjóð-
félagshópar geta hvorki myndast né viðhaldist án slíks siðferðislegs skyldu-
boðs. Þessa lýsingu á þjóðfélagshópum má hæglega yfirfæra á þjóðir. Þegar
í skrifum Ernests Renan má finna vísanir í mikilvægi minningarinnar fyrir
tilvist þjóðar5 og frá og með skrifum Benedicts Anderson vitum við að
þjóðir mótast sem ímynduð samfélög.6 Þetta er vert að skoða nánar.
4 Jan Assmann, Das kulturelle Gedächtnis: Schrift, Erinnerung und politische Identität in
frühen Hochkulturen, München: C.H. Beck, 2005.
5 Ernest Renan, Was ist eine Nation? Rede am 11. März 1882 an der Sorbonne, þýð.
Walter Euchner, Hamburg: Europäische Verlagsanstalt, 1996.
6 Benedict Anderson, Imagined communities: Reflections on the Origin and Spread of
Nationalism, London og New York: Verso, 1991.
MaRion LeRneR