Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Blaðsíða 134
134
Vegna tengsla sögu Arons við Guðmundar sögu, stíls sögunnar og
ávirkni sögumanns hafa fræðimenn talið að höfundur hennar hafi verið í
klerkastétt en haft frásagnir af Aroni frá frændum hans.48 Þá hefur verið
álitið að Þormóður Ólafsson skáld hafi verið af ætt Arons, jafnvel bróð-
ursonur hans, en Ólafur Hjörleifsson var ábóti á Helgafelli (d. 1302).49
Eitthvað hefur ættartala Hjörleifs, föður þeirra bræðra, þó ruglast í upp-
hafi sögunnar, fallið úr ættliðir, en þeir eru taldir komnir af Brandi örva,
syni Vermundar mjóva, og því af einni göfugustu ætt vestanlands.50 Meðal
annarra afkomenda Vermundar mjóva voru Skarðverjar eins og rakið er í
upphafi Sturlungu (I: 10–11). Að móðurinni til voru þeir Hjörleifssynir af
ætt Seldæla á Vestfjörðum en Hafþór, móðurfaðir þeirra, var bræðrungur
við Hrafn Sveinbjarnarson, goðorðsmann á Eyri. Í Þorgils sögu skarða er
sagt að Aron hafi reynt mikla vináttu af Böðvari Þórðarsyni, hálfbróður
Ólafs hvítaskálds og Sturlu sagnritara, þegar hann var í útlegðinni (II:
110). Gætu þeir bræður Þórðarsynir hafa fengið áhuga á sögu Arons vegna
þeirrar vináttu. En áhugi þeirra gæti einnig verið runninn frá Seldælum
því að Halla Þórðardóttir, hálfsystir þeirra, var gift Tómasi Þórarinssyni
presti í Selárdal en þeir Aron voru skyldir að öðrum og þriðja lið. Aron var
í útlegð á Vestfjörðum og þeir Hrafnssynir eru sagðir hafa verið honum
innanhandar þar. Aron var einnig fóstraður í Hítardal hjá Þorláki Ketilssyni
goðorðsmanni með Sturlu Sighvatssyni, bræðrungi þeirra Þórðarsona,
og snýst Arons saga að talsverðum hluta um átök þeirra fóstbræðra. Þau
Sigríður, móðir Arons, og Þorlákur voru bæði komin út af Þorleiki auðga,
goðorðsmanni í Hítardal, – eins og sagan kann skil á – en ef það er rétt, sem
þýski fræðimaðurinn Rolf Heller hefur haldið fram, að Þóra, móðir Ólafs
og Sturlu Þórðarsona, hafi verið af Hítdælaætt, hafa þeir bræður haft enn
meiri ástæðu en ella til að minnast Arons.51 Frásagnir um Aron, vísur og
sögur gætu þess vegna hafa þróast í einu og sama minninga- og textasam-
félagi (e. textual community).52 Rétt er að benda á að þegar komið er fram
á 14. öld eru margir helstu valdsmenn landsins og konungsþjónar ættaðir
48 Finnur Jónsson, Den oldnorske og oldislandske litteraturs historie, bls. 763; John Porter,
„Some Aspects of Arons saga Hjörleifssonar“, bls. 160–161.
49 Sjá Björn M. Ólsen, Um Sturlungu, bls. 269–271.
50 Sjá Hermann Pálsson, „Athugasemd um Arons sögu“.
51 Rolf Heller, „Þóra, frilla Þórðar Sturlusonar“, Arkiv för nordisk filologi 81/1966, bls.
39–56.
52 Sjá Brian Stock, „Medieval Literacy, Linguistic Theory, and Social Organization“,
bls. 17–18.
ÚLFaR bRaGason