Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2013, Blaðsíða 11
11
Tíminn er einn undirstöðuþáttur minnismenningar, verkefni hennar
vísar til framtíðar og tilheyrir „áformum og væntingum, þ.e. mótun félags-
legs merkingar- og tímaramma“ innan tiltekins hóps.7 Um leið byggir
minnismenning á ákveðnu sambandi við hið liðna, fortíðin sprettur ekki
einfaldlega upp í tímans rás heldur verður fyrst til þegar menn tengjast
henni. Til að unnt sé að öðlast vitund um fortíðina þarf að uppfylla tvö
skilyrði: Annars vegar má hún ekki hreinlega vera horfin eða „liðin“, held-
ur verða einhvers konar vitnisburðir eða ummerki hennar að vera til stað-
ar, hins vegar verða þessi ummerki að greina sig með augljósum hætti frá
samtímanum.8 Ekki er hægt að skynja viðvarandi eða óbreytt ástand sem
fortíð. Til að fortíð verði til þarf m.ö.o. að koma til rofs sem skilur á milli
nútíðar og fortíðar:
Sérhvert rof á sögulegri samfellu eða frá hefðinni er fært um að geta
af sér fortíð, að því tilskildu að menn leitist við að byrja upp á nýtt.
Endurkoma, endurreisn og endurheimt birtist ávallt á þann hátt
að fortíðin er tekin upp. Um leið og þær vísa veginn til framtíðar,
framleiða þær fortíðina, endurgera hana og uppgötva.9
Að mati Jans Assmann er dauðinn upprunalegasta birtingarmynd og að
nokkru leyti frum-reynsla rofsins, sem skilur á milli þess að hverfa eða
vera áfram.10 Þegar ókomnar kynslóðir minnast látinna og halda þeim „á
lífi“, leyfa þeim að viðhaldast, er um að ræða menningarlega athöfn sem
rekja má til einarðs vilja hópsins, að láta hina gengnu ekki falla í gleymsk-
unnar dá. Þannig er minningarathöfnin um hina látnu upprunalegasta
og útbreiddasta birtingarmynd minnismenningar. Um leið sýnir hún að
hugtök eins og „hefð“ eða „varðveisla“ ná ekki utan um það sem hér hefur
verið kallað minnismenning. „Ástæðan er sú að hefðarhugtakið breiðir yfir
rofið sem getur af sér fortíðina, en setur þess í stað samfelluna, endurnýj-
7 Jan Assmann, Das kulturelle Gedächtnis, bls. 31.
8 Sama rit, bls. 31–32.
9 „Jeder tiefere Kontinuitäts- oder Traditionsbruch kann zur Entstehung von Ver-
gangenheit führen, dann nämlich, wenn nach solchem Bruch ein Neuanfang ver-
sucht wird. Neuanfänge, Renaissancen, Restaurationen treten immer in Form eines
Rückgriffs auf die Vergangenheit auf. In dem Maße, wie sie Zukunft erschließen,
produzieren, rekonstruieren, entdecken sie Vergangenheit.“ Sama rit, bls. 32.
10 Sama rit, bls. 33.
STAðIR OG MENNINGARLEGT MINNI