Skírnir - 01.01.1980, Page 57
SKÍRNIR
LOFTUR Á LEIKSVIÐINU
55
Kveikjuna að leikstjórnarhugmynd sinni virðist Eyvindur hafa
fengið í bréfi sem Jóhann Sigurjónsson skrifaði skömmu eftir
að leikritið var tekið til sýninga, en þar mótmælir hann ein-
dregið tilhneigingu manna að skilja Loft sem einhvers konar
Fástgerving. Markmið hópsins var þannig að endurvekja raun-
sæi leikritsins, færa Loft niður á jörðina.
Þetta fékk ég staðfest í viðtali mínu við Arnar Jónsson og
Þórhildi Þorleifsdóttur. Frá upphafi æfinga var reynt að berjast
gegn þeim hefðum sem höfðu skapast í túlkun hlutverksins og
leikritsins í heild. Ákveðið var að leggja ekki of mikla áherslu
á dulúðina í leikritinu, heldur sýna Loft sem „ungan mann sem
rekst á skilningsleysi í umhverfi sínu, getur ekki gert það sem
hann vill sökum ríkjandi hefða og hugmyndafræði og reynir
að brjóta sér leið út í ókannað frelsi, en lætur of marga líða
fyrir það,“ eins og Þórhildur komst að orði. Sviðsmyndinni var
ætlað að túlka þessa grundvallarhugsun, hún átti að minna á
torfbæ með súð, þar sem fólkið neyddist til að ganga bogið, og
setti þetta talsverðan svip á hreyfingar leikara. Vindskeiðar bæj-
arins mynduðu stóran hallandi kross fremst á sviðinu og hefur
það trúlega átt að tákna hugmyndafræðilegt ok kristninnar.
Sá Loftur sem kemur inn á sviðið í fyrsta þætti er ungur,
glæsilegur á velli og þóttafullur í fasi, andstæðan milli hans og
betlaranna sem hafa skriðið inn í horn herbergisins er mikil.
í atriðinu með blinda ölmusumanninum vottar fyrir góðlátlegu
umburðarlyndi og hlýju, sem þó er blandin dálítilli gremju yfir
óbifandi ró og auðmýkt blinda mannsins. Þegar í þessu atriði
reyndi Arnar að sýna að „óskin“ væri fremur tilraun og mögu-
leiki en hamslaus ástríða og sannfæring.
Eftir að blindi ölmusumaðurinn er farinn út blaðar Loftur
í skræðunni sem hann er nýbúinn að fá og þegar Steinunn
birtist er hann jafnvel byrjaður á einhvers konar galdraathöfn.
Viðmót hans gagnvart henni einkennist fremur af leiða og
áhugaleysi en tilfinningakulda. Allt atriðið er fullt óeirðar og
öryggisleysis og viðbrögð þeirra breytast stöðugt: þegar hún
sækir að honum vísar hann henni á bug, en þegar hún dregur
sig undan fylgir hann á eftir. Honum er greinilega órótt og
hann reynir að halda henni frá sér, en í lok atriðisins nær lost-