Skírnir - 01.01.1980, Side 163
SKÍRNIR
LEIKRIT OG LEIKHÚS
161
ljóðkynjuð eintöl í Fósturmold sem áttu víst að auka leikinn
víðtækari, táknlegri merkingu umfram leiksöguna sjálfa. Eins
og að sínu leyti Sæluríkið leystist leikurinn upp í hálfkveðin
og eftir því marklaus stóryrði um „lífið“.
Þessi leikrit voru ekki beysinn skáldskapur né burðug sviðs-
verk, ef ég man þau rétt. Samt sem áður liggur frá þeim rak-
inn þráður til seinni leikrita höfundarins, Sólarferðar og Stund-
arfriðar. 1 þeim báðum er fyrir að fara að minnsta kosti drögum
raunsæislegrar leiksögu, skopfærðum allt að farsaleik í Sólarferð,
en alvörugefins efnis, allt að því sorglega í Stundarfriði. En að
vísu ekki nema drögum. Guðmundur sinnir ekki í þessum verk-
um frekar en fyrri leikritum sínum ýkja mikið um raunsæislega
persónusköpun eða framþróun atburðarásar á sviðinu, en þeim
mun meir urn persónugervingu þekkjanlegra manngerða og
verklega framvindu leiks. Yrkisefni hans er umfram allt málið
sem fólkið í leikjunum talar og þar með hugarheimur sem þetta
málfar birtir, fólkið á sviðinu allt skopgervingar hversdagsfólks
og tungutak þess sótt til og líkt eftir hversdagsmáli. Eins og mál-
far stjórnmálanna og stjórnmálamanna var eða átti að verða úr-
lausnarefni í Forsetaefninu, eins er hversdagslífið sjálft, alkunn-
ar manngerðir, hugmyndir, orðafar yrkisefnið í Sólarferð og
Stundarfriði. Og fólkið í leikjunum miðlar lífsýn þeirra, og þar
með þeirri gagnrýni raunverulegra lífshátta og verðmætamats
sem leikirnir vilja framfleyta, saman í kór, ekki í aðgreinilegum
hlutverkum sínum eða framvindu átaka og atburða. Gildi og
áhrifamáttur þeirra lielgast umfram allt af því að áhorfandinn
þekki í raun sjálfan sig í tungutaki og hugarheimi leiksins á
sviðinu.
Torveldlega gekk að samsama til þessara nota eðlisþætti öfga-
fengins farsa og sálfræðilegs gamanleiks í Sólarferð, svo að leik-
urinn framfleytti raunhæfri umræðu um vandamál og veruleika
hversdagslífs, ekki bara farsalegri skopfærslu hversdagsfólksins
sem leikurinn lýsir. í Stundarfriði hefur höfundurinn að vísu
miklu meira vald á efnivið og aðferð sinni. Fólkið á sviðinu er
fyrst og fremst fulltrúar þriggja kynslóða og þar með ígildi önd-
verðra lífsviðhorfa sem höfundur teflir saman, vegur hvert á
móti öðru og kveður þar með upp yfir þeim dóm í leiknum.
li