Skírnir - 01.01.1980, Page 134
132 ÓLAFUR JÓNSSON SKIRNIR
og ríkisbubbi sem aldrei lætur í minnipokann, er að vísu mann-
gerð sem miklu víðar kemur fyrir í raunsæislegum samtíma-
skáldskap, hjá Agnari sjálfum og öðrum höfundum, og þá ein-
att í miklu ískyggilegri mynd. Áreiðanlega mætti gera á því
lærdómsríka athugun hvernig handhöfum auðs og valds, því
sem næst undantekningarlaust fulltrúum hins illa, ófarnaðar og
dauða, er lýst í raunsæislegum samtímaskáldskap, bæði sögum
og leikritum; og kynni þá að koma á daginn furðu mikil sam-
svörun í lýsingunum.
Leiknum lýkur með siðferðislegri niðurstöðu sem ætla má
að taka eigi í fullri alvöru, þeim vísdómsorðum að „mesti auð-
urinn sé í lieiðarlegu fólki“ og eru lögð í munn Sigmundi bónda-
karli, skopfærðum allt til loka leiksins. 1 skjól hans flýr ung og
ólétt stúlka í lokin og ber lífsvon í leiknum; en reyndar er
leikslokunum í Delerium búbónis á svipaðan veg farið. Það er
yfirleitt býsna algengt í raunsæislegum eftirstríðsbókmenntum
að kona, barnshöfn sé látin standa sem tákn og ígildi lífs eða
lífvona, hvernig sem úr rætist — sbr Aldinblóð og Uglu í Atóm-
stöðinni. Oftar en ekki er barnshöfnin, barnsvonin bundin hug-
myndum um fráhvarf frá öfugsnúinni samtíð til einfaldra lífs-
hátta og óbrjálaðra verðmæta, oft uppi í sveit. Heimvonin til
sveitarinnar, óbrotinna lífshátta og upprunalegs gildismats fyrri
samfélagshátta í landinu, er raunar eitthvert helsta efnisminni
í raunsæislegum samtíðarbókmenntum allt frá stríðslokum og
fram á þennan dag. Það eru fleiri en Sigrún litla í Kjarnorku
og kvenhylli sem frelsast vilja eða frelsast eiga til heilbrigðs lífs
í sveitinni. Og undur að sjá hve viðhorfin til sveitalífsins í fyrri
daga breytast gagngert á örskömmum tírna, jafnvel hjá einum og
sama höfundi eins og tam. hjá Ólafi Jóhanni Sigurðssyni eða
Indriða Þorsteinssyni.
Að sjálfri þessari hugmynd um óðalið fyrir vestan, þar
sem lífið er svo indælt og hægt að komast áfram bæði í hrepps-
nefnd og ungmennafélagi, dró Jökull Jakobsson dár og spé í
sínu fyrsta leikriti, farsanum Pókók, líka í Iðnó. Og það er ein-
kennilegt að sjá að sömu hugmynd tekur Jökull sjálfur upp í
fullri alvöru, að því er virðist, í ýmsum seinni leikritum sínum,
Sjóleiðinni til Bagdad og Syni skóarans og dóttur bakarans, til