Skagfirðingabók - 01.01.1992, Blaðsíða 22
SKAGFIRÐINGABÓK
Eins og áður er skrifað fluttu þau Björn Þorkelsson og Guð-
laug Gunnlaugsdóttir að Sveinsstöðum vorið 1864. Þau gengu
í hjónaband 16. maí, og fór sú athöfn fram í Goðdalakirkju.
Svaramenn voru vandamenn Björns, Þorkell á Svaðastöðum og
Jóhannes á Dýrfinnustöðum. „Morgungjöf engin“ er skrifað í
kirkjubók.
Fyrsta búskaparár Björns var bústofn hans þessi: 2 kýr, 24
ær, 12 gemlingar, 2 hestar tamdir og 2 hross ótamin. Næstu árin
fjölgaði búfé jafnt og þétt, og frá 1868 fram um 1880 er framtalið
16 til 20V2 lausafjárhundrað, en 1 lausafjárhundrað var 1 kýr
fullgild eða 6 ær loðnar og lembdar í fardögum. Fátækustu
bændur töldu fram tvö til fjögur lausafjárhundruð.
Fróðlegt er að líta yfir framtöl í Lýtingsstaðahreppi árið
1874. Langhæsta framtal er hjá séra Hjörleifi í Goðdölum, 36
lausafjárhundruð, og næstur er séra Jón Sveinsson á Mælifelli
með 28 hundruð, svo Krithóll og Bakkakot með 26 hundruð,
Litlahlíð 22 hundruð, Mælifellsá 21 hundrað, Brúnastaðir 20
hundruð, Vindheimar 19 hundruð og Sveinsstaðir 18'/2 hundrað.
Á þessum árum var flest búfé á Sveinsstöðum: 3 kýr, 147 kindur
og 16 hross. Tvenn fjárhús voru þar, önnur á túninu niður und-
an bænum, en hin úti á túninu norðan við gildrag, sem liggur
ofan í gegnum túnið. Bæði þessi fjárhús tóku samtals 160 fjár.
Norðast á túninu var hesthús, sem tók 16 hross, ef eg man rétt.
Á árunum eftir 1880 voru mikil harðindi og skaðar á búfé. Þá
lækkaði búfjártala á Sveinsstöðum eins og víðast annars staðar.
Frá 1888 til 1917 er hreppsbók ekki til í Lýtingsstaðahreppi
og ekki heldur búnaðarskýrslur.
Jón Jónsson, er lengi bjó á Eyvindarstöðum í Blöndudal,
sagði mér, að hann hefði verið á Sveinsstöðum vorið 1885. Þá
voru harðindi og lömbin skorin, þegar þau fæddust, því heylítið
var. Jón var þá 16 ára og fékk það hlutverk að aflífa lömbin, því
Björn hafði ekki þrek til að gera það sjálfur. Sennilega hafa ekki
öll lömb verið skorin, heldur þau, sem fæddust fyrri hluta sauð-
burðar.
20