Skagfirðingabók - 01.01.1992, Page 143
VÖÐ Á HÉRAÐSVÖTNUM
orðin geysimikil, bæði langleiðina og til kaupstaða, auk smá-
ferða.
Ohætt mun að segja, að um 1940 hafi menn almennt verið
hættir að ríða yfir Héraðsvötn á hinum fornu og nýju vöðum,
sem þekkt voru. Þeim mönnum fer nú óðum fækkandi, sem
muna hin fornu vöð, eða höfðu glögga spurn um sum, frá fyrri
tíma mönnum. Er því hætt við, að þegar þeir gömlu, sem enn
hjara, eru úr sögunni, muni vöðin gleymast, nöfn þeirra og hvar
þau voru. Vegna þess, að ég hefi haft töluverða tilhneigingu til
að hirða eitt og annað það, sem gamalt er og oft hefði e.t.v. ann-
ars orðið gleymsku að bráð, hefi ég tekið saman það, sem hér
eftir segir frá vöðum á Héraðsvötnum, frá því að Jökulsárnar
koma saman og allt til sjávar.
Strdkavað. Það er fyrir neðan beitarhús þau, sem eru á milli
Teigakots og Villinganess og kölluð eru Sel. Farið er ofan í gilið
eigi langt fyrir sunnan Selstún, og þar er langt brot frá suðvestri
til norðausturs. Af brotinu falla Vötnin í hyl undir klettahöfða
að vestan. Á þessu vaði er grýttur botn og afmarkaður farvegur,
sem breytist lítið. I minnsta vexti á vetrum er vatnið vel í kvið á
hestum, þegar farið er austur yfir, en beljar hærra á leið vestur
yfir, því þá er nær beint á móti straumi. Sjaldan er fært þar yfir
á sumrin.
Teigakotsvað. Það var sunnan við túnið í Teigakoti. Farið var
ofan í gilið eftir grasgeira sunnan við tún, og þar lágu Vötnin frá
suðaustri til norðvesturs, að klettum austan undir túninu. Þetta
vað var nær því á miðjar síður í minnsta vexti og ekki fært ef
nokkur vöxtur var.
Kláfsvað. Það var sunnan við kláfstæðið. (Hér er átt við
Flatatungukláf). Það var langt brot frá norðvestri til suðausturs
og var farið út í af eyri að vestan, þar sem kláfstöpullinn stóð, og
komið að landi sunnan við endann á klettabeltinu, sem kláf-
stæðið er á. Af brotinu féll vatnið til norðausturs undir kletta-
beltið. I minnsta vexti var vatnið vel í kvið, en hægt var að ríða
þar yfir, þó nokkur vöxtur væri, og tók þá á miðjar síður.
141